Mál körfuboltakonunnar Brittney Griner verður loks tekið fyrir af rússneskum dómstólum á föstudaginn, rúmum fjórum mánuðum eftir að hún var handtekin af landamæravörðum fyrir að reyna að smygla inn ólöglegum rafrettuvökva til Rússlands.

Griner hefur verið í haldi síðan um miðjan febrúar eftir að kannabisvökvi fyrir rafrettur fannst í farangri hennar við komuna til Rússlands.

Gæsluvarðhald yfir henni var um leið framlengt um sex mánuði en hún var á dögunum kosin í stjörnulið WNBA-deildarinnar, sterkustu körfuboltadeild heims, í sérstakri heiðurskosningu.

Rússar hafa boðið bandarískum stjórnvöldum að skiptast á föngum ef Bandaríkin eru tilbúin að sleppa vopnasalanum Viktor Bout úr haldi sem var á sínum tíma dæmdur í 25 ára fangelsi.

Griner hefur um árabil verið ein af bestu körfuboltakonum heims og leikið í Rússlandi yfir vorið þegar WNBA-deildin er í fríi.