Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ mun taka fyrir kynþáttaníðið sem Kinu Rochford leikmaður Hamars í 1. deild karla í körfubolta varð fyrir af stuðningsmanni Sindra í leik liðanna um helgina.

Hannes S. Jónsson formaður KKÍ segir málið afar leiðinlegt en bendir á að forráðamenn Sindra hafi tekið málið föstum höndum og kveðst ánægður með viðbrögð þeirra. Þá segir hann málið vera komið í formlegt ferli hjá KKÍ.

„Fyrst og fremst vil ég taka fram að þetta mál er afar leiðinlegt. Svona lagað viljum við ekki sjá í íþróttaheiminum og auðvitað bara hvergi í samfélaginu.

Mér finnst körfuboltadeild Sindra hafa brugðist hratt og vel við og að mínu mati er heillavænlegt í þessu tilfelli að grípa frekar til fræðslu en banns frá því að umræddur stuðningsmaður mæti á leiki í framtíðinni," segir Hannes.

„Framkvæmd leiksins verður vísað til aga- og úrskurðarnefndar KKÍ sem mun fjalla um málið. Þau tól sem sú nefnd hefur til þess að refsa fyrir svona lagað er sektargreiðsla. Það er ekki KKÍ sem sér um að setja stuðningsmanninn í bann og reglugerðin gerir ekki ráð fyrir heimaleikjabanni sem mögulegu refsiúrræði.

Ef fara á þá leið að banna stuðningsmanni að mæta á leiki liðsins þá er það félaganna að setja það bann og framfylgja því. Það verður að hafa í huga í þessu máli að starfsmenn KKÍ urðu ekki varir við kynþáttaníðið," segir hann.