Málefni Jóns Þórs Haukssonar voru ekki rædd á stjórnarfundi KSÍ 3. desember þrátt fyrir að Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður sambandsins, sæti fundinn.

Stjórnarmenn þurftu því að lesa um hegðun landsliðsþjálfarans í fjölmiðlum en fengu bréf frá formanninum í fyrradag. Jón Þór óskaði eftir starfslokum hjá KSÍ í gær.

Í yfirlýsingu frá Jóni Þór segir að hann hafi alltaf lagt áherslu á að koma hreint fram við þá leikmenn sem hann hafi þjálfað. „

Að hrósa og gagnrýna með það að markmiði að hjálpa þeim að gera enn betur og styrkja þannig liðið. Slík samtöl eiga hins vegar ekki heima í fögnuði sem þessum og alls ekki undir áhrifum áfengis. Þarna brást ég sem þjálfari liðsins,“ segir Jón Þór og að hann hafi beðið liðið og einstaka leikmenn afsökunar.

„Undanfarna daga hafa samtöl mín við leikmenn liðsins leitt mig að þeirri niðurstöðu að erfitt verði að endurheimta nauðsynlegt traust á milli mín sem þjálfara og einstakra leikmanna,“ segir enn fremur og að hann hafi óskað eftir starfslokum.

Borghildur var með í ferðinni til Ungverjalands þar sem íslenska kvennalandsliðið tryggði sér sæti á lokakeppni EM. Hún hefur ekki viljað tjá sig um ferðina við fjölmiðla og bent á Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra.