Harry Maguire, fyrirliði karlaliðs Manchester United í knattspyrnu, er að glíma við meiðsli sem hann varð fyrir þegar hann spilaði með enska landsliðinu gegn Danmörku í Þjóðadeild UEFA í vikunni.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði á blaðamannafundi í dag að meiðslin gætu orðið til þess að Maguire missi af leik liðsins gegn Newcastle United í fimmtu umferð ensku úrvalsdeildarinnar annað kvöld.

Maguire var ekki upp á sitt besta í leik enska liðsins gegn Dönum en honum var vísað af velli með rauðu spjaldi í 1-0 tapi Englands.

Þá hefur byrjun Manchester United í deildinni ekki verið upp á marga fiska en liðið hefur þrjú stig eftir fyrstu þrjá leiki sína. Manchester United fékk 6-1 skell á móti Tottenham Hotspur í síðasta leik sínum fyrir landsleikjahléið.