Sadio Mané er ekki einhver hjálparhella fyrir Roberto Firmino og Mo Salah. Þvert á móti. Á árinu hefur Mané skorað 15 mörk í ensku deildinni. Man­chester City leikmennirnir Sergio Agüero og Raheem Sterling koma þar á eftir. Þegar allar keppnir eru skoðaðar hefur Agüero skorað 21 mark en Mané 20. Þess má geta að mörk Mané hafa komið í 28 leikjum.

Séu þeir sem eru af mörgum taldir bestir í heimi í þessari stöðu skoðaðir þá hefur fýlupúkinn Neymar skorað sjö mörk á árinu og Eden Hazard níu.

Þó Firmino og Salah sé af mörgum taldir vera lykilmenn í hinum ótrúlega sóknarleik Liverpool er Salah með 12 mörk í 29 leikjum og Firmino með átta. Það er alveg hægt að halda svona áfram.

Ian Doyle, sem skrifar hvað mest um Liverpool í staðarblaðinu Liverpool Echo, sagði í vikunni í podkasti að frá því að Mané skoraði gegn Jóhanni Berg og félögum í Burnley á nýársdag 2018 hafi ferill hans með félaginu farið á flug. „Hann gæti vel unnið gullknöttinn, Ballon d’Or. Hann fær víti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem félagið vinnur, kemst í úrslitaleikinn í Afríkumótinu þar sem hann var einn af markahæstu mönnum, varð einn af þremur markahæstu mönnum ensku deildarinnar og hefur skorað mest á þessu ári. Hann er orðinn einn af okkar allra bestu mönnum.

Síðan hann skoraði markið gegn Burnley hefur ferill hans farið á mikið flug. Hann skoraði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar það ár og Real Madrid vildi fá hann í kjölfarið. Hann fór þó ekki og ekki heldur í sumar. Þrátt fyrir aðeins rúmar tvær vikur í fríi er hann hungraður sem fyrr,“ sagði Doyle.

Hann benti þó á að Mané hefði ekki sama glans yfir sér og aðrir sem eru í samkeppni við hann um gullknöttinn og því ætti hann trúlega ekki möguleika á að vinna þá keppni.

Metjöfnun

Mané var eðlilega á bekknum í fyrsta leik Liverpool gegn Norwich. Þá var hann nánast nýlentur eftir Afríkumótið. Hann byrjaði gegn Southampton og skoraði stórkostlegt mark sem kom Liverpool á bragðið. Þar með hefur Mané skorað í fjórum fyrstu byrjunarliðsleikjum sínum í deildinni í röð. Það er jöfnun á meti Ástralans Marks Viduka. Þótt hann hafi ekki fengið mikið sumarfrí þá eru gárungarnir þegar farnir að spá því að Mané geti skorað 30 mörk á þessum tímabili. Hann skoraði 26 í öllum keppnum á síðasta tímabili. Það er kannski hægt að minnast á það að Mané tekur ekki vítaspyrnur eða aukaspyrnur. Mörkin hans koma öll úr opnum leik sem er nánast ótrúlegt.

Magnað vinnuframlag

Það er eiginlega enn ótrúlegra að það hafi verið Mané sem dró Liverpool liðið áfram gegn Southampton. Leikurinn fór fram tveimur dögum eftir að félagið lyfti ofurbikar Evrópu í Tyrklandi, í leik sem fór í framlengingu í miklum hita. Mané, eins og áður hefur komið fram, fékk nánast ekkert sumarfrí, og því var magnað að fylgjast með honum hlaupa og hlaupa og hlaupa svo meira.

1-0 forysta er ekki mikið og Mané bjó til síðara mark liðsins með því að pressa hátt með krafti sínum og leggja boltann svo silkimjúkt fyrir Firmino sem skoraði. Vinnuframlag hans er einnig magnað.

Í fyrra vann hann 34 tæklingar sem er um ein í leik. Þess má geta að Harry Maguire, dýrasti varnarmaður heims, vann 31 samkvæmt heimasíðu enska boltans. Ekki að samanburður á sóknarmanni og varnarmanni sé eitthvað gáfulegur en þetta sýnir vinnuframlags Senegalans.

Kann ekki á Playstation

Mané er fæddur á því herrans ári 1992 í Bambali í Sedhiou-héraðinu í Senegal og dreymdi um að verða fótboltamaður. Foreldrar hans vildu þó ekki að hann sparkaði bolta eins og hann sagði sjálfur frá í viðtali við France Football. Þar sagði hann að í raun hefði hann stungið af til að fara til Dakar þar sem var verið að prófa unga leikmenn. Hann hafi komið í frekar ónýtum skóm og varla litið út eins og fótboltamaður. En þrátt fyrir útlitið voru gæði í guttanum og var hann valinn úr rúmlega 300 börnum.

„Ég er ekki á samfélagsmiðlum og held mig fjarri sviðsljósinu. Ég reyni að komast í þorpið mitt eins oft og ég get til að halda mig á jörðinni. Ég vil vera fótboltamaður en ekki stjarna. Ég kann ekki einu sinni að spila Playstation. Ég vil frekar spila Uno,“ sagði hann meðal annars.

Mané bendir á í viðtalinu að foreldrar hans hafi ekkert verið hrifnir af þessum draumi um að verða atvinnumaður í fótbolta og vildu að guttinn fyndi sér alvöru vinnu. „Ég fékk að fara aftur til Dakar þegar ég var 15 ára eftir að skólanum lauk. Foreldrar mínir samþykktu það á endanum. Þau eru trúuð og vildu aðra hluti fyrir mig en hjartað í mér sagði fótbolti. Ég fór með frænda mínum og komst í Gener­ation Foot skólann sem hafði haft Diafra Sakho og Papiss Cissé sem nemendur. Eftir að foreldrar mínir sáu hver voru mín örlög hafa þau hjálpað mér mikið.“

Litli demanturinn

Mané er að fjármagna skóla í heimaþorpinu sínu og gaf 200 þúsund pund til að hann gæti risið. Myndir af honum þrífa klósettið komu fáum á óvart þegar þær birtust. Eftir að hafa fjármagnað sjúkrahúsið í héraðinu og styrkt fátæka og fjölmörg góðgerðasamtök í heimalandinu er ekki nema von að hann sé kallaður litli demanturinn. Þegar breska blaðið The Telegraph ætlaði að fjalla um góðmennsku hans bað Mané um að það yrði ekki gert. „Ég er ekki að gera þetta til að vekja athygli á mér. Ekki setja þetta í blaðið.“ Það var orðið við óskum hans en staðarmiðill í Senegal sagði fyrst fréttir af styrkjum hans og þá sagði Telegraph frá sinni hlið.

Þegar hann kallaði lítinn bolta­strák til sín í leiknum gegn Chelsea til að gefa guttanum treyjuna sína fékk hann heimsbyggðina til að brosa. Það var engin tilgerð í þeim gjörningi. Í fótboltaheiminum þar sem flestir eru komnir með upp í kok af fordekruðum fótboltamönnum sem eru alltof ríkir er allavega einn góður gæi eftir. Sá sem hugsar til þeirra sem minna mega sín. Sá er Sadio Mané.