Kristín Steinþórsdóttir vakti athygli fyrir að veifa íslenska fánanum keik í mannhafi ungverskra stuðningsmanna á meðan á leik Íslands og Ungverjalands stóð í lokaumferð í riðlakeppni Evrópumótsins í handbolta karla í gær.

Kristín, sem hefur fylgt íslenska liðinu á fjölmörg stórmót, segir að það hafi alls ekki þurft hugrekki til þess að styðja íslenska liðið af miklum móð á meðan á leiknum stóð í gær. Ungversku stuðningsmennirnir hafi verið mjög almennilegir tekið henni opnum örmum.

„Það var síður en svo að ég þyrfti eitthvert sérstakt hugrekki til þess að sveifla fánanum stolt á meðal stuðningsmanna Ungverja.

Þeir Ungverjar, sem sátu í kringum mig hið minnsta, voru indælisfólk sem tók mér bara vel. Þeir voru að sjálfsögðir svekktir að tapa leiknum en tóku reiðina alls ekki út á mér eða öðrum stuðningsmönnum Íslands,“ segir Kristín.

„Ástæða þess að ég var ein þarna á meðal ungversku stuðningsmannanna er sú að ég ætlaði á leikinn með systur minni en hún komst ekki vegna veikinda. Það var hins vegar bara yndisleg upplifun að horfa á leikinn með Ungverjunum. Ég hafði ekki við að taka sjálfur með þeim og taka við hamingjuóskum um gott gengi í framhaldinu,“ segir hún.

Systurnar á leik á Evrópumótinu í Búdapest.
Mynd/aðsend

„Að vera þarna á meðal 20.000 áhorfenda sem studdu liðin með ráðum og dáðum var algerlega mögnuð upplifun og ég hef aldrei upplifað annað eins á þeim stórmótum sem ég hef farið ár. Ég fór á fyrsta stórmótið árið 1978 þegar heimsmeistaramótið var haldið í Danmörku. Ég tók svo pásu þar til ég fór til Álaborgar á Evrópumótið árið 2014.

Síðan þá hef ég mætt á öll Evrópumót og upplifunin á leiknum í gær var sú magnaðasta sem ég hef oriðið vitni að. Stemmingin var svakaleg og það var líka ánægjulegt að finna hvað andinn var góður. Ekkert vesen og allir bara að styðja sitt lið.

Ég hef mætt á alla leiki íslenska liðsins í keppinni og stemmingin hjá íslensku stuðningsmönnunum er mjög góð,“ segir Selfyssingurinn.

„Ég var að sjálfsögðu mjög glöð eftir leikinn og vaknaði kát og sæl. Fékk mér góðan morgunmat og er núna að skoða fallegar byggingar í Búpadet.

Þetta er æðisleg borg og hér er gott að vera. Ég ætla að vera hér næstu vikurnar, mæta á leiki íslenska liðsins og njóta þess að vera ellilífeyrisþegi í þessari glæsilegu borg. Það er margt verra en það,“ segir Kristín létt í lundu.