Magic Johnson, goðsögn Los Angeles Lakers, sagði í útvarpsþættinum NBA Together Virtual Roundtable Session, að leikmenn í NBA deildinni geti vel spilað körfubolta og barist fyrir bættum heimi.

Ekkert hefur verið spilað í NBA deildinni vegna Covid-19 og ofan á það loga Bandaríkin vegna morðsins á George Floyd og fleiri blökkumanna af hendi lögreglumanna. Á meðan íþróttir í Evrópu eru að skríða úr Covid-skelinni er verið að ræða um að tímabilið 2019-2020 í NBA verði flautað af. Það líst goðsögninni ekkert á.

„Leikmenn hafa þennan vettvang sem er deildin. Ég held að leikmenn verði að skilja að þetta er tækifæri fyrir þá til að setjast niður og koma með breytingar sem þeir geta krafist sem hópur.

Þeir geta gert þetta saman, í sitthvoru lagi, í sinni eigin borg og svo framvegis en þeir geta komið saman og sagt; Við styðjum þennan hóp eða þetta málefni en við ætlum að gera þetta saman. Baráttan mun halda áfram og mun gera það með eða án leikmanna NBA-deildarinnar því þetta er orðin barátta heimsins,“ sagði goðsögnin meðal annars.

Hann telur að þegar leikmenn myndi hreyfingu geti hún orðið mjög öflug með sterka rödd. „Á endanum mun koma til raunverulegra breytinga í borgum og bæjum um allan heim og það er ekkert mál að spila körfubolta og berjast fyrir bættum kjörum.“

Magic er þekktur sem mikill mannvinur og hefur verið óhræddur við að tjá skoðanir sínar um hin ýmsu mál í gegnum tíðina. Hann hrósaði viðbrögðum deildarinnar eftir morðið á Floyd. „Ég hef verið stoltur að sjá hvernig deildin brást við og leikmenn nýttu sína miðla til að segja: Þessu þarf að ljúka.“