Magic Johnson, fyrrum leikmaður Los Angeles Lakers, hefur verið lengi talinn einn besti sendingarmaður NBA deildarinnar en á þessum degi árið 1996 fékkst það staðfest þegar hann gaf sína tíu þúsundustu stoðsendingu. Los Angeles Lakers spilaði þá við Sacramento Kings á útivelli í hörkuleik og gaf þegar Magic sína fimmtu stoðsendingu í leiknum á Elden Campell var múrinn brotinn. Þegar boltinn fór svo útaf var gert hlé á leiknum og risu áhorfendur úr sætum og klöppuðu fyrir goðinu sem hafði snúið svo eftirminnilega til baka aftur á völlinn.

Leikurinn endaði með sigri Lakers 102-89. Alls gaf Magic 10.141 stoðsendingu á sínum ferli en hann varð annar leikmaðurinn til að gefa 10 þúsund stoðsendingar. Aðeins John Stockton hafði rofið 10 þúsund stoðsendingamúrinn. Síðar komust Jason Kidd, Mark Jackson og svo Steve Nash yfir Magic og er hann fimmti yfir þá sem hafa gefið flestar stoðsendingar.

Ferill Magic spannaði 13 tímabil í NBA deildinni og er af mörgum talinn einn besti bakvörður sem hefur hlaupið um NBA gólfið. Hann snéri aftur á gólfið fyrir 1995 tímabilið eftir að hafa hætt sökum HIV vírusins. Hann spilaði allan sinn feril með Lakers og vann fimm meistarahringa. Hann kom inn í deildina árið 1979 eftir glæstan háskólaferil með Michigan State. Þar byrjaði einvígi hans við Larry Bird sem lék með Indiana State. Sú barátta hélt áfram í NBA deildinni.

Magic fyrir framan mynd af þeim félögum, honum og Larry Bird.

Magic kom inn í Lakers liðið sem hafði Kareem Abdul Jabbar sem leitaði eftir sínum fyrsta titli með Lakers. Hann kom þeim í úrslitin gegn Philadelphia 76ers þar sem hann spilaði leik sex sem bakvörður, framherji og miðherji og tryggði Lakers titilinn með 42 stigum, 15 fráköstum, sjö stoðsendingum og þremur stolnum boltum. Hann var valinn besti leikmaður úrslitana og er enn eini nýliðinn sem hefur gert það. Frammistaða hans í þessum leik er enn talinn vera ein sú rosalegasta í sögu NBA.