„Auðvitað er leiðinlegt að glutra niður tveggja marka forskoti, hvað þá gegn jafn sterkum andstæðingi og Frakklandi en við hefðum verið svekktari ef þetta hefði verið keppnisleikur,“ sagði Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður, aðspurður út í leik Íslands og Frakklands þegar Fréttablaðið hitti á hann í dag.

„Við erum smá svekktir en við getum tekið heilmargt úr þessum leik og verið mjög sáttir með okkar frammistöðu í þessum leik gegn ríkjandi heimsmeisturunum. Þegar maður hugsar það núna þá fann maður fyrir smá vanmati hjá þeim,“ sagði Arnór og hélt áfram:

„Við vissum fyrir leik að þeir yrðu meira með boltann en við vorum ekkert að opna okkur. Þeir fengu fá færi og við fengum í raun fleiri færi. Þeirra færi koma eftir okkar mistök sem segir hvað það við vorum að spila vel. Eftir skellinn sem við fengum í leikjunum þar áður þá getum við borið höfuðið hátt og mætt fullir sjálfstrausts eftir jafnteflið gegn Frökkum.“

Hann átti ekki von á því að það yrði erfitt að mótivera leikmenn Íslands fyrir leikinn.

„Það ætti ekki að vera erfitt gegn Sviss. Við töpuðum sex núll úti sem er eitthvað sem er ekki boðlegt. Þetta á ekki að gerast. Við fáum aldrei á okkur svona mörg mörk enda góðir að verjast þannig að við ætlum okkur að vinna þennan leik.“

Arnór kom inn í byrjunarliðið gegn Frakklandi og átti fínar rispur.

„Það var góð tilfinning, ég er búinn að bíða lengi eftir því að byrja aftur leikinn og ég var eins og allir í liðinu einbeittir að sýna okkur þarna.“

Arnórfékk örlítið auðveldara verkefni á kantinum þar sem Kylian Mbappé var hvíldur sem Arnóri þótti miður.

„Ég var spenntur að mæta honum, það hefði verið gaman að kljást við hann. Hann er orðinn einn besti leikmaður heims þótt að hann sé bara nítján ára gamall og hann breytti leiknum eftir að hafa komið inná.“