Ég var bara að snúa aftur til vinnu eftir að hafa verið í sumarfríi frá því að verkefni okkar á Evrópumótinu lauk,“ segir Þorsteinn við Fréttablaðið. ,,Á næstu dögum förum við á fullt í að greina okkar frammistöður á EM og undirbúa næsta verkefni. Auðvitað hef ég samt horft á leiki okkar á mótinu en án þess þó að hafa farið í mikla greiningarvinnu á því sem fór fram í þeim leikjum.“

Frammistaða íslenska landsliðsins verði greind í þaula. ,,Við munum fara náið yfir okkar frammistöðu á EM og svo skiljum við bara við það. Í kjölfar þess hefst undirbúningur fyrir aðal málið í dag og það eru þessi lokaleikir okkar í undankeppni HM.“

Þorsteinn er ánægður með Evrópumótið í heild sinni sem var mikil skemmtun. ,,Ég held að þetta hafi verið virkilega flott mót. Það myndaðist frábær stemmning í kringum það og vel staðið að öllu. Þetta var í raun og veru flott í alla staði. Það mætti segja að þetta hafi verið góð auglýsing fyrir kvennaknattspyrnuna. Þarna var spilaður frábær fótbolti og bara virkilega gaman fyrir okkur að hafa verið hluti af þessu.“

Tæpur mánuður er í næsta verkefni landsliðsins sem hefur örlögin í eigin hendi fyrir lokaleiki sína í undankeppni HM gegn Belarús og Hollandi.

,,Við munum alltaf fá þennan úrslitaleik í Hollandi sama hvernig fer í fyrri leiknum á móti Belarús. Nú er það bara undir okkur komið að hafa fókusinn á réttum stað og tryggja okkur sæti á Heimsmeistaramótinu, sama hvernig við förum að því. Við þurfum bara að byrja á því að vinna Belarús, spila góðan leik þar. Fara svo til Hollands og ná í góð úrslit.