Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, lauk um daginn leik á sínu fyrsta keppnistímabili á Áskorendamótaröð Evrópu. Haraldur Franklín lagði inn á mótaröðina með þrjú markmið í huga og náði fyrsta markmiði sínu. Hann segist mæta á næsta tímabil reynslunni ríkar og þá stefni hann hærra.

„Fyrsta markmiðið var að lenda í topp 70 á mótaröðinni og tryggja mér þannig betra skorkort og inn á fleiri mót á mótaröðinni á næsta tímabili. Þetta tímabil var að mörgu leyti skrýtið. Mótunum var frestað í upphafi ársins vegna kórónuveirunnar og svo var mjög erfitt að skipuleggja sig fram í tímann og ferðast," segir Haraldur Franklín um frumraun sína á mótaröðinni.

„Á þessu tímabili var óvissan þó nokkur vegna frestanan sökum veirunnar og svo voru nokkur mót þar sem ég fékk keppnisrétt seint. Þar sem ég er minn eigin skipuleggjandi hvað ferðamáta og gistingu varðar þá er ég orðinn mjög sleipur í að skipuleggja ferðalög. Ég verð illa svikinn ef ferðaskrifstofurnar hafa ekki samband við með með vinnu í huga þegar ferlinum lýkur," segir kylfingurinn léttur.

„Það var vissulega svekkjandi að ná ekki að vera í topp 45 og komast á lokamótið en ég er hins vegar sáttur við árangurinn. Ég var að spila flestalla vellina í fyrsta skipti og ég mæti reynslunni ríkari á næsta tímabil. Þá verð ég líka með betra skorkort og öruggt sæti á fleiri mótum þannig að ég get skipulagt mig betur fram í tímann og veit við hverju verður að búast á völlunum sem ég spila," segir hann.

Haraldur Franklín og kylfuberi hans og kærasta Kristjana Arnarsdóttir.
Fréttablaðið/Getty

„Þetta voru mjög mismunandi vellir sem spilað er á og gaman að prófa sig við mismunandi aðstæður. Mér fannst skemmtilegast að spila í Suður-Afríku þar sem ég spilaði bæði mjög hátt yfir sjávarmáli og svo við ströndina. Ég kann best við mig á strandvöllum og þetta voru mjög skemmtilegar kontrastar," segir Haraldur Franklín.

„Næstu vikur verð ég hér heima við æfingar og svo ætla ég að taka að mér aðstoð við kennslu hjá þjálfaranum mínum. Þegar mótaplanið fyrir Áskorendamótaröðina fyrir næsta tímabil kemur fer ég svo á fullt að skipuleggja mig. Þar er ég einnig orðinn reynslumeiri og mun vita betur hvaða mót er best að velja og hvernig verður best að stýra álaginu," segir hann.

„Langtímamarkmiðið er að koma sér inn á Evrópumótaröðina og klífa nógu hátt upp heimslistann til þess að komast inn á Ólympíuleikana í París árið 2024. Ég er ekki viss hvernig ég stend þar en það er bara að halda áfram að klífa upp listann og sjá hverju það skilar mér," segir Vesturbæingurinn um framhaldið.

Á þessu ári hefur Haraldur Franklín farið upp um um það bil 100 sæti á heimslista karla í golfi með frammistöðu sinni á Áskorendamótaróð Evrópu. Um miðja október var hann í 561. sæti á heimslistanum.