Kvennalandsliðið í handbolta mætir Svíþjóð í fyrsta leik Íslands í undankeppni EM 2022 ytra í dag, en fyrir fram er Svíþjóð með sterkasta lið riðilsins. Ísland leikur tvo leiki í þessum landsleikjaglugga, þann seinni gegn Serbíu um helgina. Síðasta lið riðilsins er tyrkneska landsliðið.

Hafdís Renötudóttir glímir við smávægileg meiðsli og er Saga Sif Gísladóttir til staðar ef Hafdís verður ekki leikfær í tæka tíð.

Tvö lið fara áfram í lokakeppnina sem fer fram í Norður-Makedóníu, Slóveníu og Svartfjallalandi á næsta ári, en þá verða tíu ár liðin frá því að íslenska kvennalandsliðið komst síðast á stórmót í handbolta.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir, leikmaður KA/Þórs, leikur tímamótaleik í dag þegar hún verður tíunda konan sem leikur hundrað landsleiki fyrir kvennalandsliðið.