Töluverður fjöldi Íslendinga hefur snúið til baka frá Ungverjalandi smitaður af Covid-19. Um er að ræða íslenska stuðningsmenn sem stutt hafa liðið í fyrstu leikjum mótsins.

Þannig kom nokkur fjöldi Íslendinga heim í vikunni eftir að riðlakeppnin var á enda og hefur Fréttablaðið rætt við fjóra einstaklinga sem voru í Búdapest og komu allir smitaðir af Covid-19 til baka.

Þau sem Fréttablaðið ræddi við sögðust öll vita af fleiri smitum í kringum sig við heimkomu.

„Það var grímuskylda í höllinni en það fóru ekki allir eftir henni,“ sagði einn Íslendingurinn í samtali við Fréttablaðið, en vildi ekki láta nafns síns getið.

Þegar rætt var um sóttvarnir í Búdapest voru öll þau sem Fréttablaðið ræddi við á sama máli um að lítið væri verið að spá í þær í borginni. Sjö smitaðir hafa greinst í íslenska landsliðinu sem mætir Frakklandi í dag.

Um er að ræða sex leikmenn og að auki sjúkraþjálfara liðsins.