Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætir Kanada og Skotlandi í riðlakeppninni á Algarve Cup. Mótið fer fram dagana 27. febrúar til 6. mars.

Ísland mætir Skotlandi í vináttulandsleik á La Manga 21. janúar og því eru tveir leikir gegn Skotum framundan hjá íslenska liðinu. Leikurinn gegn Skotlandi á La Manga er fyrsti leikur íslenska liðsins undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar.

Sú breyting hefur verið gerð á fyrirkomulagi Algarve Cup að liðin leika nú þrjá leiki í stað fjögurra. Þetta er gert til að minnka leikjaálag.

Ísland og Kanada hafa aðeins einu sinni áður mæst, á Algarve Cup 2016. Þá vann kanadíska liðið 1-0 sigur.

Ísland og Skotland hafa hins vegar tíu sinnum mæst. Íslendingar hafa unnið fimm leiki, Skotar þrjá og tveir enduðu með jafntefli. Þess má geta að fyrsti leikurinn í sögu íslenska kvennalandsliðsins var gegn Skotlandi 1981.