KSÍ staðfesti í dag að karlalandsliðið myndi mæta San Marínó í æfingaleik ytra þann 9. júní næstkomandi. Þetta verður fyrsta viðureign liðanna frá upphafi en San Marinó er almennt talið eitt slakasta landslið heims.

Leikurinn kemur í stað leiks Íslands og Rússlands í Þjóðadeildinni eftir að UEFA ákvað að dæma Rússum ósigur í öllum leikjum eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Ísland mætir San Marínó mitt á milli leikja liðsins gegn Albaníu og Ísrael á heimavelli. San Marínó er í neðsta sæti styrkleikalista FIFA og hefur aðeins unnið einn keppnisleik í sögunni.

San Marínó er eitt fjögurra knattspyrnulandsliða í Evrópu sem karlalandsliðið hefur aldrei mætt ásamt Gíbraltar, Serbíu og Bosníu.