Stelpurnar okkar mæta Frökkunum á nýjum velli á morgun þegar leikur liðanna fer fram á New York Stadium. Völlurinn fagnar tíu ára afmæli sínu á þriðjudag.

Völlurinn er í borginni Rotherham rétt fyrir utan Sheffield og leikur heimaliðið, Rotherham United, leiki sína hér. Kári Árnason lék með félaginu um árabil.

Völlurinn tekur rúmlega tólf þúsund manns í sæti og opnaði 19. júlí 2012. Hann kostaði um 17 milljónir punda eða um 2,8 milljarða íslenskra króna.

Nafnið er í höfuðið á fyrirtæki sem var á þessum slóðum áður en völlurinn var reistur og er þekkt fyrir að framleiða rauðu brunahranana sem þekkjast í New York.