Þjálfarateymi íslenska kvennalandsliðsins í handbolta fékk að vita það í dag að liðið mæti Argentínu en ekki Angóla á æfingarmóti í Póllandi sem hefst um helgina.

Axel Stefánsson, þjálfari kvennalandsliðsins staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið í dag.

Ísland ferðast til Póllands í fyrramálið og tekur þátt í fjögurra liða æfingarmóti sem er hluti af undirbúningi íslenska liðsins fyrir umspilsleik gegn Spánverjum þar sem sæti á HM er undir.

Þar átti Ísland að mæta heimakonum í Póllandi, Slóvakíu og Angóla en Angóla hætti við þáttöku á síðustu stundu og tekur Argentína sæti þeirra.

Þetta verður í fyrsta sinn sem kvennalandslið Íslands mætir Argentínu samkvæmt upplýsingum sem fást af heimasíðu HSÍ.

„Ég frétti það í dag, degi fyrir brottför að við myndum mæta Argentínu en ekki Angóla og er að afla mér upplýsinga um Argentínu. Það verður áhugaverður leikur, það er mikill uppgangur í handboltanum í Argentínu,“ sagði Axel í samtali við Fréttablaðið.