Spænska landsliðskonan í knattspyrnu og ein besta knattspyrnukona heims, Alexia Putellas á erfitt með að lýsa því hversu þungbært það hefur reynst fyrir hana að sætta sig við þá staðreynd að hún muni ekki leika með Spánverjum á Evrópumótinu í knattspyrnu eftir að hafa slitið krossband.

Alexia sleit krossband á æfingu með spænska landsliðinu aðeins nokkrum dögum fyrir fyrsta leik Spánverja á Evrópumótinu sem fer fram á morgun. Hún verður frá í ár.

,,Ég veit ekki hvernig ég á að byrja þetta. Ég horfi á myndina og sé hversu fljótt allt getur breyst," skrifar Alexia í færslu á Instagram og birtir með mynd andartökum áður en hún sleit krossband á æfingu.

,,Þetta er hins vegar raunveruleikinn. Ég gæti svekkt mig á því afhverju þetta gerist núna, aðeins nokkrum dögum fyrir Evrópumótið sem ég hef hlakkað svo mikið til að spila á en ég ætla ekki að gera það."

Alexia segist aðeins ætla að vera þakklát fyrir gleðina sem hún upplifir á degi hverjum í tengslum við knattspyrnuiðkun sína og lífið. Gleði sem ekki allir finni fyrir.

,,Nú byrjar nýr kafli fyrir mig. Síðan að ég man eftir mér fyrst minnist ég þess ekki að hafa verið lengur frá því að snerta bolta en fimm daga. Þetta er mín ástríða og ferlið framundan mun vera áskorun. Ég er hins vegar fullviss um að ég muni koma til baka og klára það sem ég byrjaði á."

Hún verður í hlutverki stuðningsmanns spænska landsliðsins á mótinu.

,,Ég veit hvers megnugar þið eruð. Trúið að sjálfa ykkur og gefið allt í þetta."