Kosovare Asllani, sænski framherjinn sem er á förum frá Real Madrid í sumar, segir að andrúmsloftið innan herbúða Madrídarliðsins sé ekki gott og að þjálfarateymið ætlist til þess að leikmenn spili þótt að þær séu meiddar.

Þetta kom fram í viðtali við Asllani sem er í leikmannahópi Svíþjóðar fyrir Evrópumót kvenna sem hefst í næsta mánuði.

Asllani gekk til liðs við Madrídinga árið 2019 og var fyrsta stórnafnið sem kom til Madrídinga eftir að félagið kom á laggirnar kvennaliði. Sænski framherjinn var valin besti leikmaður tímabilsins í fyrra eftir að hafa skorað sextán mörk.

„Andrúmsloftið innan félagsins er ekki heilbrigt fyrir leikmenn. Þeir reyndu að neyða mig til að spila þegar ég var meidd og þjálfarateymið hlustar ekki á sjúkraþjálfarana. Þetta skapar óheilbrigt samband og andrúmsloft innan félagsins,“ sagði Asllani meðal annars.

Sara Björk Gunnarsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins, var orðuð við Real Madrid í sumar en samdi í dag við Juventus. Miðað við frásagnir Asllani virðist Sara hafa sloppið vel.

„Það er mikilvægt að þetta komi fram í dagsljósið. Ég reyndi að hafa áhrif og breyta menninguni innan félagsins án árangurs. Meiðsli mín voru engin tilviljun, það er alltaf ætlast til þess að maður spili sama hvað. Manni þykir vænt um félagið en það þurfa að eiga sér stað breytingar.“