Þessu segir Embla frá í hlaðvarpsþættinumUndir körfunni. „Ég gat ekki komið með sjö ára gamalt barn mitt á æfingar því hann öskraði á það."

Goran var látinn fara frá liðinu undir lok októbers og Embla segist alveg geta viðurkennt að hún hafi átt einhvern þátt í brottrekstri hans. ,,Ég setti fótinn niður og sagði hingað og ekki lengra. Ég spila ekki fyrir svona þjálfara. Ég gerði stjórninni líka grein fyrir því að ég væri tilbúin að stíga til hliðar og hætta, því ég var ekki tilbúinn að vera þarna og hlusta á allt þetta sem kom upp á æfingum."

Embla segir Goran hafa verið með óþarfa leiðindi við leikmenn á æfingum. ,,Hann var að gera athugasemdir við fatnað ungra leikmanna og hár þeirra. Hann gerði lítið úr leikmönnnum og það á ekki heima innan körfuboltavallarins. Ofan á það var síðan bara alls ekki gaman á æfingum."

Svo fór að Embla ræddi við stjórn Skallagríms um stjórnarhætti Gorans. „Ég steig upp sem fyrirliði liðsins og talaði við stjórnina og sagði að þetta væri ekki í boði, það voru allskonar hlutir að gerast sem áttu ekki að eiga sér stað. Stjórnin tók ekki vel í þetta fyrst því stjórnin var ekki á æfingum og hvorki sá né heyrði hvað var að gerast. Svo kom stundum einhver úr stjórninni eða einhver foreldri á æfingu, og þá var allt æðislegt á æfingum,“ segir Embla Kristínardóttir í hlaðvarpsþættinum Undir körfunni.

Stjórnin ákvað hins vegar að kafa nánar ofan í málið. ,,Þau í stjórninni voru ekkert rosalega sammála. Þau voru ekki viss hvort þetta væri allt satt en svo fara þau að tala við aðra leikmenn, tala við foreldra og aðra. Þá kemur þetta í ljós að staðan er svona. Þau er með þennan þjálfara sem hagar sér svona og árangurinn er heldur ekki góður. Þá er hann látinn fara.

Embla segir leikmenn Skallagríms ennþá vera að jafna sig. ,,Ég er ekkert að grínast með það þegar ég segi að stelpurnar voru svolítið ‘traumatized‘ eftir hann. Þetta eru bara stelpur í 10. bekk sem fengu skell á sig. Fyrir mér eru þær hetjur að vera þarna enn þá,“ sagði Embla Kristínardóttir, leikmaður Skallagríms.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Emblu Kristínardóttir í hlaðvarpsþættinum Undir Körfunni hér.