Úttektarnefnd ÍSÍ komst að þeirri niðurstöðu að vitneskja hefði verið innan KSÍ um fjórar frásagnir um að leikmenn eða aðrir sem starfa fyrir KSÍ hefðu beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi á árunum 2010-2021. Nefndin kynnti skýrslu sína í gær en þar er farið yfir atburðarásina sem leiddi til falls formanns og stjórnar KSÍ.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), varð fyrir miklu áreiti og fékk fjölmargar hótanir í kjölfar afsagnar stjórnar sambandsins og fjölmiðlaumfjöllunar og var meðal annars ráðlagt að sækja ekki barn sitt á leikskóla.

Fólk kom inn á skrifstofu KSÍ á stjórnarfundi, sýndi þar ógnandi hegðun og starfsfólk KSÍ fékk ljóta tölvupósta. Enginn þó verri en Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður sambandsins, að mati Gísla Gíslasonar stjórnarformanns sem fékk mörg ljót skilaboð sjálfur.

Þetta er meðal þess sem má lesa í niðurstöðu úttektarnefndar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) sem kynnt var í gær. Þar er farið yfir aðdraganda afsagnar formanns og stjórnar KSÍ og meðferð tilkynninga og ábendinga um ofbeldi.

Í skýrslunni kemur fram að fyrrverandi eiginkona Ragnars Sigurðssonar varð fyrir vonbrigðum með hvernig KSÍ tók á máli hennar. Nafn Ragnars er ekki nefnt í skýrslunni en þar er þó hlekkur á frétt Fréttablaðsins frá því fyrr á árinu þar sem Ragnar er nafngreindur. Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, er gagnrýndur fyrir að leita til almannatengils þegar málið kom upp. Bæði Geir og Guðni Bergsson sem tók við formennsku í KSÍ, nýttu sér almannatengla í miklum mæli.

Í einum kafla skýrslunnar er fjallað um málefni Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur sem kærði Kolbein Sigþórsson fyrir ofbeldi árið 2017. Skömmu síðar var samið í málinu og greiddi Kolbeinn henni og vinkonu hennar bætur. Hann hefur afdráttarlaust hafnað því að hafa beitt konurnar ofbeldi.

Hið margfræga Kastljósviðtal við Guðna Bergsson, þáverandi formann KSÍ, setti svo af stað atburðarás sem endaði á að hann sagði af sér og stjórnin féll. Í skýrslunni kemur fram að almannatenglafyrirtækið KOM ráðlagði Guðna að mæta ekki í téð viðtal þar sem ekki hefði ríkt traust um að RÚV myndi gæta hlutlægni og hlutleysis í fréttaflutningi sínum.

Í framhaldinu gerði stjórnarfólk verulegar athugasemdir við framgöngu Guðna. Þorsteinn Gunnarsson, stjórnarmaður í KSÍ og borgarritari, sagði tölvupóst sem starfsmaður KSÍ og tengdamóðir meints fórnarlambs sendu vera algjöra sprengju. Sú sendi formlega ábendingu eftir téð viðtal í Kastljósi.

„Stjórnin hefði aldrei verið látin vita af þessu heldur hafi bara átt að sópa málinu undir teppið,“ skrifaði Þorsteinn.

Í skýrslunni er einnig reifað að skilningur Klöru og Guðna á stöðunni sé mjög ólíkur. Kom fram hjá stjórnarmönnum að helgina sem stjórnin féll hefðu um 80-90 prósent stjórnar upplifað að þeim væri haldið fullkomlega í myrkrinu af hálfu formanns og framkvæmdastjóra. Annar sagði að fólki hefði liðið eins og það hefði orðið fyrir lest og það hefði spurt sig hvar það væri eiginlega statt.

Úttektarnefndin telur þó ekki efni til að fullyrða að framganga stjórnar, framkvæmdastjóra eða annarra starfsmanna KSÍ í málinu beri almennt einkenni þöggunar- eða nauðgunarmenningar umfram það sem gerist í íslensku samfélagi.