Úttektarnefnd ÍSÍ komst að því að Guðni Bergsson og aðrir lykilstarfsmenn innan KSÍ hefðu farið leynt með upplýsingar um ásakanir um alvarlegt kynferðisofbeldisbrot í tæpa þrjá mánuði.

Kemur þetta fram í skýrslu úttektarnefndarinnar á störfum KSÍ sem birtist í dag. Hægt er að sjá skýrsluna hér.

Þar kemur fram að Guðni og aðrir lykilstarfsmenn KSÍ hafi fengið upplýsingar þann 3. júní síðastliðinn um alvarlegt kynferðisbrot af hálfu tveggja leikmanna karlalandsliðs Íslands eftir leik gegn Danmörku í Kaupmannahöfn 2010 frá tengdarmóður fórnarlambsins sem hefur starfað fyrir KSÍ um árabil.

Það hafi ekki verið fyrr en föstudaginn 27. ágúst þegar starfsmaðurinn sendi stjórn KSÍ og öllu starfsfólkinu upplýsingar um málið, degi eftir að Guðni lýsti því yfir í viðtali við Kastljós að engin mál hefðu ratað inn á borð KSÍ.

Það liðu því 85 dagar frá því að starfsmaðurinn greindi Guðna og öðrum lykilstarfsmönnum KSÍ um brotið þar til að stjórnin fékk staðfestingu á brotinu.

Í skýrslunni er vitnað í tölvupóst Inga Sigurðssonar sem sat í stjórn KSÍ þar sem hann óskaði eftir því að fá að vita hvort og þá hvaða upplýsingar lægu fyrir hjá sambandinu varðandi upplýsingar sem Hanna Björg Vilhjálmsdóttir greindi frá um þöggunarmenningu innan KSÍ þegar kæmi að kynferðis- og ofbeldisbrotum landsliðsmanna.

„Ég tek undir með Gísla að við sem stjórn verðum að ræða saman, og a.m.k. ég vil vita hvort og þá hvaða upplýsingar liggja fyrir hjá sambandinu varðandi það sem getið er um í umræddum skoðanapistli,“ spyr Ingi en Guðni endurtekur að hann hafi engin brot verið tilkynnt í stjórnartíð hans.

„Engin mál okkar keppnisfólks hafa borist okkur formlega eða verið á okkar borði síðan ég tók við sem formaður. Við munum fara yfir þetta síðar og okkar viðbrögð nú og í framhaldinu “

Úttektarnefndin telur að yfirlýsingar sem formaður gaf í nafni KSÍ til fjölmiðla og almennings um tilvist ofbeldismála innan KSÍ hafi verið villandi, enda var formaðurinn á sama tíma með á borði sínu tilkynningu starfsmanns um ofbeldi gagnvart tengdadóttur hennar, auk þess að vera í samskiptum við leikmann landsliðsins vegna málsins.

Yfirlýsingarnar samræmdust ekki heldur því að KSÍ hafði rúmlega þremur árum áður tekið við tilkynningu um kæru á hendur öðrum leikmanni vegna ofbeldis. Að mati nefndarinnar voru yfirlýsingarnar sem fram komu til þess fallnar að gera lítið úr málum þeirra kvenna sem greint höfðu KSÍ frá ofbeldi í sinn garð.