Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta heldur áfram leik í undankeppni HM 2023 annað kvöld en íslenska liðið fær þá Tékka í heimsókn í Laugardalinn.

Ísland laut í lægra haldi fyrir Hollandi í fyrsta leik undankeppninnar en leiða má líkur að því að Holland muni bera sigur úr býtum í riðlinum og baráttan um annað sætið verði svo á milli Íslands og Tékklands.

Á sama tíma og Þorsteinn H. Halldórsson og kvennalið hans eru að berjast um að koma liðinu á heimsmeistaramót í fyrsta skipti í sögunni er Þorsteinn að móta lið sem fer til Englands næsta sumar og tekur þátt í lokakeppni EM.

Á hliðarlínunni í upphafi undankeppninnar er fyrirliði Íslands, Sara Björk Gunnarsdóttir, sem er barnshafandi, en verður komin inn á völlinn eftir áramót. Þá er Elín Metta Jensen fjarverandi í þessum landsliðsglugga vegna meiðsla.

Fréttablaðið fékk Báru K. Rúnarsdóttur, þjálfara hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Kristianstad, til að stilla upp sterkasta liði Íslands eins og sakir standa.

Þar að auki var Bára Kristbjörg beðin um að nefna þá leikmenn sem banka fastast á dyrnar hjá þjálfarateyminu og þá leikmenn sem gætu verið klárir í stærra hlutverk þegar haldið verður til Englands.

Sterkasta byrjunarlið Íslands að mati Báru:

Markvörður:

Cecilía Rán Rúnarsdóttir.

Vörn:

Hallbera Guðný Gísladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Sif Atladóttir, Elísa Viðarsdóttir.

Miðja:

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir.

Framlína:

Agla María Albertsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir.

Á hurðarhúninum

Sandra Sigurðardóttir mun ekki gefa eftir stöðu sína í markinu baráttulaust.

Guðný Árnadóttir, Guðrún Arnardóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Hafrún Rakel Halldórsdóttir gera sterkt tilkall til sætis í varnarlínunni.

Alexandra Jóhannsdóttir gæti hæglega byrjað á miðjunni og Svava Rós Guðmundsdóttir á kantinum.

Spennandi að fylgjast með

Barbára Sól Gísladóttir hefur verið að spila vel með Brøndby og hún gæti komið sér inn í hópinn á næstu vikum og mánuðum.

Þá erum við með sérstaka hæfileika í Amöndu Jacobsen Andradóttur, leikmanni Vålerenga, og hlutverk hennar mun líklega stækka með hverjum leiknum sem líður.