Danska karlalandsliðið í handbolta býr við það sérstaka umhverfi þessi misserin að þurfa ekki að hafa áhyggjur af undankeppnum stórmóta. Liðið er búið að tryggja sér sæti á næstu fjórum stórmótum.
Næstu daga fara fram leikir í undankeppni Evrópumóts landsliða sem fer fram í Þýskalandi á næsta ári. Íslenska landsliðið er á meðal þeirra liða sem tekur þátt í undankeppninni en Danir hafa nú þegar tryggt sér sæti í lokakeppninni. Það gerðu þeir með því að enda í einum af þremur efstu sætum síðasta Evrópumóts, nánar tiltekið í þriðja sæti.
Ekki þurfa Danir þá að hafa áhyggjur af undankeppni næsta heimsmeistaramóts sem ríkjandi heimsmeistarar. Og þó svo að Danir hefðu ekki orðið heimsmeistarar í janúar síðastliðnum, þá hefði liðið samt sem áður ekki þurft að taka þátt í undankeppninni því Danmörk er ein af gestgjafaþjóðum mótsins ásamt Króatíu og Noregi.
Hvað umspilsleiki fyrir Ólympíuleika næsta árs varðar, þurfa Danir ekki að hafa neinar áhyggjur af þeim. Danska landsliðið á sæti á Ólympíuleikunum sem ríkjandi heimsmeistarar.
Ef horft er til Evrópumóts landsliða árið 2026 þarf danska landsliðið ekki að huga að þátttöku í undankeppni mótsins. Danmörk er ein af gestgjafaþjóðum mótsins ásamt Noregi og Svíþjóð.
Næstu leikir danska karlalandsliðsins í handbolta gætu því farið fram vorið 2026 í undankeppni HM 2027, það er að segja ef liðið nær ekki með einhverjum hætt að tryggja sig inn á það mót fyrir undankeppnina.