Romelu Lukaku fannst gagnrýni í sinn garð ósanngjörn þegar hann var leikmaður Manchester United og fannst hann gerður að blóraböggli.

Belgíski framherjinn gekk til liðs við Inter á Ítalíu í sumar eftir tvö ár í herbúðum Manchester United. Honum tókst ekki að fylgja eftir farsælu fyrsta tímabili og náði ekki að sýna sitt rétta andlit í fyrra.

Fyrir vikið var Marcus Rashford fyrsti kostur Ole Gunnar Solskjaer þrátt fyrir að Lukaku hafi skorað tólf mörk í deildinni.

„Það þurfti að kenna einhverjum um og yfirleitt var það ég, Paul Pogba eða Alexis Sanchez sem urðu fyrir valinu. Það var alltaf okkur að kenna. Ég skildi aldrei umræðuna, það gekk allt í haginn með landsliðinu en allt fór til fjandans með Manchester United,“ sagði Lukaku og hélt áfram:

„Ég lék ekkert síðustu þrjár vikur tímabilsins og fékk þar að auki þriggja vikna frí áður en ég kom til móts við landsliðið þar sem allt gekk eins og í sögu.“

Lukaku viðurkenndi þó að hann hefði ekki verið upp á sitt besta á síðasta tímabili.

„Ég viðurkenni hvað ég gerði en ég var ekki sá eini sem var að spila illa. Það voru margir en það þurfti að finna sökudólg, blóraböggul til að axla ábyrgðina en ég hlustaði ekki á þetta og hélt áfram með mitt líf.“