Belgíski landsliðsframherjinn í knattspyrnu, Romelu Lukaku, undirgekkst í dag læknisskoðun hjá Chelsea en hann er að ganga til liðs við Lundúnarfélagið á tæpar 100 milljónir punda frá Inter Milan.

Læknisskoðunin fór fram í Mílanó en verið er að ganga frá pappírsvinnu í kringum félagaskiptin en talið er að Lukaku geri fimm ára samning við Chelsea.

Lukaku, sem er 28 ára gamall, var áður á mála hjá Chelsea en sóknarmaðurinn gekk til liðs við félagið árið 2011 frá Anderlecht og spilaði 15 leiki fyrir liðið áður en hann fór til Everton árið 2014. Áður en Lukaku hélt í herbúðir Inter Milan lék hann með Manchester United.

Á síðasta keppnistímabili skoraði Lukaku 24 mörk fyrir Inter Milan í ítölsku A-deildinni og átti stóran þátt í að tryggja liðinu ítalska meistaratitilinn í fyrsta skipti í 11 ár.