Það eru tæpir þrír mánuðir eftir af spjót­kasts­ferli Ás­dísar Hjálms­dóttur Annerud en hún hefur á­kveðið að setja spjótið á hilluna í septem­ber næst­komandi. Ás­dís lenti í erfiðum meiðslum árið 2017 sem hún var lengi að jafna sig á en hefur með þrot­lausum æfingum komið sér í sitt besta líkam­lega form.

Hún hafði á­form um að enda ferilinn með þátt­töku á Ólympíu­leikunum í Tókíó og Evrópu­meistara­mótinu en kóróna­veiran hrifsaði þann enda á ferlinum af henni. Ás­dís segir það vissu­lega vera von­brigði að ná ekki að kveðja með þeim hætti en hún hafi á­kveðið að enda ferilinn á já­kvæðum nótum. Stefnan er að bæta Ís­lands­met hennar sem hún setti árið 2017 þegar hún kastaði spjótinu 63,43 metra.

„Planið var að Ólympíu­leikarnir og Evrópu­meistara­mótið í sumar yrðu loka­punkturinn á ferlinum. Það tók svo­lítinn tíma að sætta sig við að svo yrði ekki en svo bara setti ég þau von­brigði að baki mér og á­kvað að ein­beita mér að því að ég myndi skilja við spjót­kastið í mínu besta líkam­lega formi,“ segir Ás­dís í sam­tali við Frétta­blaðið.

Ásdís hyggst hætta að keppa í frjálsum íþróttum í haust.

„Ég er fyrst núna að jafna mig al­menni­lega á á­lags­meiðslunum í bakinu sem ég varð fyrir árið 2017. Þetta hefur verið langur tími í endur­hæfingu og mikil vinna sem hefur farið í að koma mér aftur í fyrra form. Mér finnst ég fyrst núna vera æfa á réttan hátt og ég held að ég hafi aldrei verið í betra formi,“ segir spjót­kastarinn.

„Allan minn feril hef ég verið með há­leit mark­mið og brennandi ást­ríðu fyrir því að ná þeim. Framan af ferlinum hélt ég að mikið æfinga­á­lag myndi skila mér þeim árangri sem ég stefndi að en síðustu árin hef ég áttað mig á því að mark­vissar æfingar með góðri endur­heimt gefa betri raun,“ segir hún.

„Ég er mjög ánægð með það hvernig ég kem út úr þessum erfiða tíma sem meiðslatímabilið var og að geta kvatt íþróttina með jákvæðum minningum.“

„Eftir að ég náði mér af meiðslunum hélt ég á­fram að hafa þær æfingar sem ég var að gera í endur­hæfingunni inni í æfinga­prógramminu og svo lagði ég meiri á­herslu á tækni­æfingar og að fá næga hvíld á milli æfinga. Það er synd að ég hafi ekki náð að keppa á Ólympíu­leikunum og Evrópu­meistara­mótinu í jafn góðu formi og ég er í núna,“ segir þessi metnaðar­fulli í­þrótta­maður.

„Ég er mjög á­nægð með það hvernig ég kem út úr þessum erfiða tíma sem meiðsla­tíma­bilið var og að geta kvatt í­þróttina með já­kvæðum minningum. Ég hef verið að ná stöðugum kast­seríum upp á síð­kastið og mér líður eins og ég geti náð mínum besta árangri á næstu vikum. Það væri ó­skandi að það yrðu haldin Demanta­mót áður en ég hætti en ég hef lært það á löngum ferli að það þýðir ekki að vera eltast við gul­rætur. Það þarf bara að taka því sem að höndum ber,“ segir Ás­dís um komandi verk­efni.

„Fram undan er bara að taka þátt á mótum hér og þar um Evrópu og freista þess að bæta mig með hverju kasti. Mig langar mjög til þess að bæta Ís­lands­metið áður en ég læt gott heita. Ég er svo farin að huga að því hvað ég ætla að gera þegar ég hætti að keppa.

Ég er byrjuð að halda fyrir­lestra og bjóða upp á ráð­gjöf fyrir í­þrótta­menn. Ég hef lært mikið á löngum ferli, við upp­setningu æfinga, and­legu hliðina og að tækla gagn­rýni svo dæmi séu tekin. Ég hefði haft mjög gott af því að hitta jafn reynslu­mikinn í­þrótta­mann og ég er núna þegar ég var að byrja ferilinn. Það væri sóun að ausa ekki úr visku­brunni mínum og ég hyggst miðla reynslu minni. Ég og maðurinn minn höfum stofnað fyrir­tæki í kringum fyrir­lestra mína og ráð­gjöf og ég er mjög spennt fyrir þessu nýja hlut­verki,“ segir hún um fram­haldið.