„Þetta er fyrsta ár okkar í þessu verkefni og reynsla okkar af þessu hingað til hefur verið afar góð. Við sjáum fyrir okkur að hægt sé að stækka þetta verkefni og höfum meðal annars rætt að bæta snjóbrettum við þetta og jafnvel skíðagöngu,“ segir Dagbjartur Halldórsson, afreksstjóri Skíðasambands Íslands, aðspurður út í Lowlanders, verkefni sem snýr að alþjóðlegu skíðaliði sem Skíðasambandið tekur þátt í.

Ísland kemur að verkefninu ásamt Belgíu, Danmörku, Hollandi, Írlandi og Lúxemborg og keppir liðið víðs vegar um Evrópu. Í dag eru fjórir Íslendingar í liði Lowlanders, þau Fríða Kristín Jónsdóttir, Gauti Guðmundsson, Georg Fannar Þórðarson og Katla Björg Dagbjartsdóttir.

„Undanfarin ár hafa einhverjir Íslendingar fundið sér lið á erlendri grundu sem eru í eigu einkaaðila. Það kostar peninga að taka þátt í því, en þetta er á allt öðrum forsendum. Þetta er samkomulag milli sex þjóða sem eru í þessu verkefni og eru með þjálfara í föstu starfi við að vinna með okkar fulltrúum,“ segir Dagbjartur og nefnir sem dæmi að Sturla Snær Snorrason er hluti af liði sem er í eigu bandarísks manns og Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir er hluti af sænsku liði.

Þjóðirnar deila kostnaðinum sem fylgir rekstri slíks liðs sín á milli eftir fjölda fulltrúa og er það því undir Skíðasambandinu komið hversu margir taka þátt hverju sinni.

„Samkomulagið er að hvert samband greiðir hlutfallslega eftir því hversu marga fulltrúa þeir eiga í liðinu hverju sinni. Það eru þrír möguleikar sem standa til boða. Það er hægt að vera í þessu á fullu sem tryggir 120-150 skíðadaga á ári. Svo er hægt að vera í þessu í 70% hlutfalli eða hægt að koma inn þegar tækifæri gefst, til dæmis fyrir stakar æfingaferðir eða mót. Svo ef það hentar ekki á einhverjum tímapunkti að senda fólk af okkar hálfu í þetta verkefni getum við dregið okkur í hlé í einhvern tíma. Á sama tíma er mikið öryggi að hafa sex þjóðir inni í þessu sem gerir fjárhagslegan bakgrunn verkefnisins sterkan. Það skiptir því ekki máli ef einhver þjóð ákveður að minnka umsvif sín eitt árið.“

Aðspurður segist Dagbjartur áætla að þetta fyrirkomulag spari um 50-60 prósent af því sem myndi kosta að vera með einstaklinga upp á eigin spýtur í sambærilegum verkefnum. Á sama tíma hafa Íslendingar verið að ná betri og betri árangri í skíðabrekkunum undanfarnar vikur.

„Það væri mun dýrara að halda þessu úti á eigin forsendum, með afreksfólk og þjálfara úti á okkar snærum. Áætlanir sýna að þetta sé að spara okkur um 50 prósent í útgjöldum við að halda uppi slíku starfi fyrir okkar fremsta íþróttafólk. Þetta er mun ódýrari kostur og gerir okkur kleift að gera þetta. Í þessu tilviki náum við að samnýta hlutina betur og okkar afreksfólk fær að æfa og keppa við bestu aðstæður með einstaklingum á sama getustigi. Það skiptir gríðarlega miklu máli og virðist vera að skila góðum árangri. Auðvitað erum við árangursdrifin og stefnum að því að ná árangri með landsliðsfólkið okkar. Þegar við sjáum okkar fólk vera að taka framförum og ná betri úrslitum hvetur það þessa stefnu áfram.“

Katla Björg í verkefni með Lowlanders
mynd/aðsend

Dagbjartur tekur undir að þetta geti líka framlengt ferilinn hjá okkar fremsta skíðafólki.

„Það er styrkur í því, fyrir ungt og upprennandi skíðafólk, að sjá þessa leið og sjá að ef það stendur sig vel verður þessi farvegur í boði. Um leið getur þetta framlengt ferilinn. Skíðaíþróttin er dýrt sport sem einstaklingar hafa hingað til þurft að borga úr eigin vasa til móts við styrkina frá okkur. Með þessari leið er hægt að lækka þann kostnað og styðja betur við bakið á okkar fólki. Í skíðaíþróttinni eru flestir að toppa frá 24-30 ára og þetta gæti reynst mikilvægur liður í því ferli.“

Þetta er um leið önnur leið fyrir ungt og efnilegt skíðafólk sem áður hefur iðulega farið til Bandaríkjanna og æft skíði meðfram námi.

„Bandaríska leiðin hefur reynst mörgum vel en í Evrópu færðu mun fleiri skíðadaga, bæði æfingadaga og mót,“ segir Dagbjartur og segist feginn að það hafi tekist að halda aftur af smitum. „Sem betur fer hefur tekist vel að sinna sóttvörnum og koma í veg fyrir smit. Það eru strangar reglur í liðinu og okkur hefur tekist að forðast smit.“

Í aðdraganda Vetrarólympíuleikanna á næsta ári á Dagbjartur von á að það fjölgi jafnvel í hóp Íslendinga í hópi Lowlanders á næsta skíðatímabili en verið er að vinna í því að undirbúa næsta tímabil innan Skíðasambandsins.

„Næsta skíðatímabil hefst í vor og við erum að leggja drög að næsta keppnistímabili. Það er stórt keppnisár þar sem Ólympíuleikarnir standa upp úr. Ég á frekar von á því að við bætum í og gefum fleirum tækifæri á þessu.“