Lovísa, sem er 22 ára gömul, útskýrði í færslu sinni á Instagram að æfingar og keppni væru ekki að veita henni þá gleði sem handboltinn hafi áður gert og það væri kvöð að mæta inn á handboltavöllinn.

„Það er mikill léttir að hafa tekið þessa ákvörðun og opinberað hana. Þetta er eitthvað sem ég hef verið að finna síðustu mánuðina og ég er ánægð með að hafa tekið á þessu áður en ég lendi á vegg,“ segir Lovísa í samtali við Fréttablaðið.

„Ég hef verið að finna fyrir því bæði með Val og landsliðinu að það skortir gleðina sem handboltinn á að gefa mér og pressan var meiri á því að standa mig en vellíðan við að standa sig vel.

Mér fannst ég ekki geta brugðist liðinu með því að taka pásu en eftir að hafa fengið frábæran stuðning bæði frá Val og þeim sem standa að málum hjá HSÍ þá ákvað ég að taka þessa ákvörðun,“ segir þessi metnaðarfulla handboltakona enn fremur.

Ég hef verið að finna fyrir því bæði með Val og landsliðinu að það skortir gleðina sem handboltinn á að gefa mér og pressan var meiri á því að standa mig en vellíðan við að standa sig vel.

„Í síðasta landsliðsverkefni fann ég að ég var meira kvíðin fyrir því að valda vonbrigðum og fann fyrir leiða í aðdraganda verkefnisins. Ég ákvað að harka af mér og reyna að finna gleðina í þeim leikjum.

Eftir að ég kom heim aftur og hafa ráðfært mig við þá sem standa næst mér og eldri og reynslumeiri leikmenn þá ákvað ég að setja sjálfa mig í fyrsta sæti, kúpla mig aðeins út og finna gleðina aftur með því að fá að æfa á eigin forsendum.

Horfa á hlutina aðeins utan frá og koma mér hægt og rólega inn í hlutina á nýjan leik.

Fá að mæta áfram í fótboltann, hitta stelpurnar og geta kannski sett handboltann í annað sæti í fyrsta skipti síðan ég var unglingur,“ segir Lovísa sem skaust fram á sjónarsviðið þegar hún varð Íslandsmeistari með Gróttu árið 2015, þá einungis 15 ára gömul.

„Það má kannski alveg segja að ég hafi bara sleppt því að vera unglingur og ég hafi farið úr því að vera barn í fullorðinsheim. Ég vil taka það fram að ég fékk góða aðstoð og gott utanumhald bæði að heiman, frá þjálfurum og forráðamönnum Gróttu og Vals og innan HSÍ.

Ég er hins vegar þannig týpa að ég vil gera hlutina af fullum krafti eða sleppa því og ég kannski setti félagslífið aðeins of mikið til hliðar og pressan á að ná árangri var farin að vera yfirsterkari en gleðin við handbolta sem þarf að vera til staðar. Ég var hætt að brosa inni á vellinum eins og ég var vön og ég fann að það var stutt í að ég myndi klessa á vegg,“ segir hún.

„Svo má ekki gleyma því að ég hef þurft að bera mikla ábyrgð og farið í gegnum bæði að vinna titla með þeim félögum sem ég hef spilað með, fall með Gróttu og allt þar á milli.

Mér fannst ég vera komin á þann stað að það væri skynsamlegast að taka eitt skref til baka og setja aðra hluti en handboltann í forgang. Geta skipulagt nokkrar vikur út frá öðru en handboltanum,“ segir Lovísa sem er á þriðja ári í sálfræðinámi við Háskóla Íslands.

Mér fannst ég vera komin á þann stað að það væri skynsamlegast að taka eitt skref til baka og setja aðra hluti en handboltann í forgang. Geta skipulagt nokkrar vikur út frá öðru en handboltanum

„Mig langar að fá að þakka kannski sérstaklega Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur fyrir bæði aðstoð og ráð sem hún hefur veitt mér. Þá er ég þakklát fyrir stuðninginn sem ég hef fengið frá Hlíðarenda og HSÍ. Það er engin pressa á mér að koma til baka og ég hef ákveðið það sjálf að setja enga tímapressu á það hvenær ég sný aftur á fullt í handboltann.

Ég hef byrjað vinnu með fagaðilum sem forráðamenn HSÍ aðstoðuðu mig við að komast í samband við og svo ætla ég bara að njóta þess að fá að vera bara Lovísa en ekki Lovísa Thompson, handboltakona, í smástund.

Að mínu mati er það umhugsunarefni hversu margar ungar og efnilegar stelpur eru að upplifa það sama og ég er að ganga í gegnum, finna fyrir einhverjum leiða eða hafa jafnvel hætt iðkun.

Það er eitthvað sem mig langar að vinna með í framtíðinni, mögulega í gegnum íþróttasálfræðina, að aðstoða unga íþróttamenn með mikinn metnað. Það er mikilvægt að setja ekki andlegu hliðina og félagslífið utan íþróttanna alveg til hliðar þó metnaður að ná langt sé mikill.

Þetta ferli er einn stór lærdómur sem ég er að takast á við sem íþróttakona og á bara eftir að efla mig enn frekar ef ég hyggst koma aftur á handboltavöllinn,“ segir Lovísa um framhaldið.