Dejan Lovren, landsliðsmaður Króatíu, sem leikið hefur með Liverpool frá því sumarið 2014 hefur verið kynntur til leiks sem nýr leikmaður rússneska úrvalsdeildarliðsins Zenit frá Péturborg.

Félagaskiptin hafa legið í loftinu síðustu vikurnar en Lovren hefur verið aftarlega í goggunarröðinni hjá Jürgen Klopp hjá Liverpool á keppnistímabilinu sem var að ljúka. Virgil van Dijk, Joe Gomez og Joël Matip voru á undan honum.

Lovren sem kom til Liverpool á sama tíma og Adam Lallana er að fara frá félaginu á sama tíma en Lallana er á leiðinni til Brighton.

Þessi 31 árs varnarmaður spilaði 131 leiki á þeim sex árum sem hann var á mála hjá Liverpool og skoraði í þeim leikjum fimm mörk. Lovren spilaði 10 deildarleiki með Liverpool á leiktíðinni sem var að ljúka en hann kveður liðið sem Englandsmeistari, heimsmeistari félagsliða og sigurvegari í Meistaradeild Evrópu frá því vorið 2019.