Dejan Lovren, varnarmaður króatíska landsliðsins, gagnrýndi heimsmeistara Frakka harðlega eftir úrslitaleik HM í gær.

„Við vorum betri í leiknum og vorum betri á mótinu,“ sagði hinn yfirlýsingaglaði Lovren.

„Frakkar spiluðu ekki fótbolta. Þeir biðu eftir sínum færum og skoruðu. Þeir höfðu bara eina taktík og þú verður að virða það. Þeir spiluðu svona í öllum leikjunum. Ég er vonsvikinn því við töpuðum leiknum. En við spiluðum miklu betri fótbolta en þeir.“

Lovren er ekki sá fyrsti sem gagnrýnir leikstíl Frakka en Belgarnir Thibaut Courtois og Eden Hazard gerðu það eftir undanúrslitaleik liðanna sem franska liðið vann 1-0.

Ummæli Lovrens eftir undanúrslitaleik Króata og Englendinga vöktu mikla athygli en þá sagðist hann vera einn besti varnarmaður heims.

Lovren leikur með Liverpool sem komst í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Þar beið Rauði herinn lægri hlut fyrir Real Madrid, 3-1.