Lovísa Thompson, leikmaður Vals, meiddist á æfingu íslenska kvennalandsliðsins í handbolta í gær og missir því af leikjum Íslands í undankeppni HM 2019 sem hefst á föstudaginn.

Kemur þetta fram í tilkynningu sem HSÍ sendi frá sér í morgun en mbl.is segir frá því að um sé að ræða höfuðhögg.

Ísland hefur leik í undankeppni HM á föstudaginn í Skopje en með Íslandi í riðli eru Tyrkland, Makedónía og Aserbaídsjan. 

Eitt lið fer upp úr riðlinum í umspil þar sem sæti á HM verður í boði.

Lovísa er enn einn leikmaðurinn sem verður að draga sig úr hópnum vegna meiðsla, áður höfðu Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir þurft að draga sig úr hópnum.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort að HSÍ muni bæta við leikmanni fyrir þetta verkefni en tekin verður ákvörðun um það seinna í dag.