Meiðsli tóku sig upp hjá Lovísu Thompson i leik íslenska kvennalandsliðsins í handbolta gegn Noregi í gær og heldur hún því nú heim á leið í dag.

Leikurinn í gær sem var vináttulandsleikur var liður í undirbúningi fyrir leiki liðsins á móti Spáni í umspili um laust sæti á HM 2020.

Sandra Erlingsdóttir liðsfélagi Lovísu hjá þreföldum meisturum Vals fyllir hennar skarð í hópnum og fer Sandra til Noregs síðar í dag.

Sandra fer svo með liðinu til Spánar á morgun, en íslenska liðið mætir Spánverjum í fyrri umspilsleik um laust sæti á HM ytra á föstudaginn kemur.