Los Angeles Lakers, sigursælasta lið NBA-deildarinnar í körfubolta ásamt Boston Celtics, var verðmetið á 5,5 milljarða dala, eða um 681 milljarð íslenskra króna, þegar eigendur Los Angeles Dodgers, Mark Walter og Todd Boehly, keyptu 27% hlut í félaginu um helgina.

Hluturinn var áður í eigu Philip Anschutz, eiganda AEG, sem á Staples Center höllina, heimavöll Lakers sem og lið Los Angeles Kings í NHL-deildinni í íshokkí og Los Angelex Galaxy í MLS-deildinni í fótbolta.

Lakers olli vonbrigðum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar á dögunum þegar liðið féll út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en á síðasta ári tókst Lakers að jafna við erkifjendur sína í Boston sem sigursælasta lið deildarkeppninnar frá upphafi með sautjánda meistaratitli félagsins.

Félagið hefur verið afar sigursælt undanfarna áratugi og unnið sex meistaratitla frá aldamótum. Þá hafa stærstu stjörnur deildarinnar iðulega leikið í búningi Lakers en á þessum tuttugu árum hafa Shaquille O'Neal, Kobe Bryant, LeBron James og Anthony Davis allir átt hlut í því að koma með meistaratitil til Los Angeles.

Óhætt er að segja að Walter og Boehly, sem greiddu samkvæmt fjármálatímaritinu Forbes um 1,35 milljarða dala fyrir 27 prósent hlut í Lakers, hafi greitt rausnarlega fyrir hlutinn en fyrr á þessu ári var markaðsvirði Lakers að mati Forbes um 4,6 milljarðar dala.

Miðað við verðið sem þeir greiða fyrir hlut sinn er Lakers næstverðmætasta félag heims á eftir Dallas Cowboys sem leikur í NFL-deildinni en Cowboys er verðmetið á 5,7 milljarða dala. Um leið er Lakers verðmætasta félag í NBA-deildinni.

Til samanburðar var félagið Utah Jazz, sem var með besta árangurinn í Vesturdeildinni á nýafstöðnu tímabili, keypt á 1,66 milljarða dala síðasta haust og sala á Minnesota Timberwolves stendur yfir þessa dagana fyrir 1,5 milljarða dala.

Stærsti hluthafi Lakers, Buss-fjölskyldan, á enn tvo þriðju eignarhluts í þessu sögufræga félagi en eignarhluti Anschutz sem skiptir nú höndum var sá næststærsti. Um leið er umræddur eignarhluti með rétt til höfnunar á sölu á hlutum í félaginu. Síðustu sjö prósentin í Lakers eru í eigu Patrick Soon-Shiong og Edward Roski.