Los Angeles Lakers lagði í nótt Miami Heat að velli í sjötta leik liðanna í úrslitarimmunni um NBA-meistaratitlinn. Lakers hafði þarna betur í fjórða leik sínum í einvíginu og er þar af leiðandi NBA-meistari í 17. skipti i sögu félagsins.

Þar með lýkur tíu ára þurrkatíð Lakers en liðið varð síðast NBA-meistari árið 2010 en síðustu sex tímabilin fyrir nýlokna leiktíð komst liðið ekki í úrslitakeppni deildarinnar. Mesta niðurlægingartímabilið var 2015 til 2016 þegar liðið bar einungis sigurorð í 17 leikjum og laut í lægra haldi í 65 leikjum.

Le­Bron James sem skoraði 28 stig í leiknum í nótt, tók 14 fráköst og gaf 10 stoðsendingar var þarna að vinna sinn fjórða NBA-titil. James hefur unnið titlana með Miam Heat, Clevland Cavaliers og nú Lakers. Hann hefur enn fremur farið níu sinnum í úrslit NBA síðustu tíu árin.

James var valinn besti leikmaður úrslitaseríunnar en hann varð þar sem fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA til þess að hljóta þá nafnbót með þremur mismundandi liðum. James hefur fjórum sinnum verið valinn besti leikmaður í úrslitum NBA-deildarinnar en Michael Jordan hefur oftast hreppt það hnoss eða sex sinnum.

Ant­hony Dav­is og Rajon Rondo komu næstir hjá Lakers með 19 stig hvor en Davis tók einnig 15 fráköst og Rondo gaf fjórar stoðsendingar.

Að þessu sinni var úrslitakeppnin leikin í búbblu í Lake Bu­ena Vista í Flórída en leikmenn Lakers og Miami Heat hafa verið þar í einangrun tók fjóra mánuði.