Það er ekki aðeins barist um efsta sætið í keppni bílasmiða og ökumanna heldur er gamall rígur að gera vert um sig á tímabilinu. Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn, segir að keppnin um helgina gæti orðið sú mikilvægasta á tímabilinu.

Á toppnum er baráttan um fyrsta sætið í heimsmeistarakeppni bílasmiða hörð á milli Mercedes og Red Bull Racing en baráttan um þriðja sætið er einnig virkilega spennandi. Aðeins þrettán og hálft stig skilur að milli Ferrari sem situr í þriðja sætinu og McLaren sem er í því fjórða.

Carlos Sainz, ökuþór Ferrari og Lando Norris, ökuþór McLaren
GettyImages

,,Ferrari komst upp fyrir McClaren í stigakeppni bílasmiða í fyrsta skipti á tímabilinu eftir Mexíkó kappaksturinn um síðustu helgi og virðast vera með mikinn meðbyr fyrir lokakeppnir tímabilsins. Lando Norris, ökumaður McClaren hefur verið í lægð undanfarnar keppnir, þetta hefur verið erfitt hjá honum og það verður fróðlegt að sjá hvort hann nái að klóra sig upp úr þessu í Brasilíu," segir Kristján Einar í samtali við Fréttablaðið.

Alvaran hefst í kvöld með tímatöku klukkan 19:00. Á morgun er ein nýjungin á tímabilinu prufuð í þriðja skiptið er sprettkeppni fer fram. Tímatakan mun skera úr um uppstillinguna fyrir sprettkeppnina þar sem ökuþórarnir munu keyra rúma 100 kílómetra til þess að ákvarða uppröðunina fyrir sjálfan kappaksturinn sem er á sunnudaginn.

,,Við erum með sprettkeppni um helgina og í hinum tveimur keppnum tímabilsins þar sem hefur verið sprettkeppni hafa Hamilton og Verstappen lent saman. Brautin í Brasilíu bíður upp á mikla baráttu milli bíla þannig að við gætum fengið algjört einvígi þeirra á milli," segir Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar og hlaðvarpsþáttarinsPitturinn.