Tilkynnt var síðastliðið þriðjudagskvöld að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefði ákveðið að skipa starfshóp sem væri ætlað að vinna tillögur fyrir nýjan þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum. Hópnum er ætlað að skoða hvort hagkvæmt sé að byggja upp eldra mannvirki eða hvort þurfi að byggja nýjan völl, ásamt því að greina frá kostnaðinum sem því fylgir. Áætlað er að hópurinn skili af sér skýrslu þann 1. maí næstkomandi.

Um árabil hefur Frjálsíþróttasamband Íslands kallað eftir bættri aðstöðu utandyra. Laugardalsvöllur, sem FRÍ hefur deilt með Knattspyrnusambandi Íslands, telst ekki lengur löglegur sem keppnisvöllur í frjálsum íþróttum. Ákveðið var á síðasta ári að skipa sambærilegan starfshóp til að finna úrlausnir fyrir knattspyrnulandslið Íslands, sem hafa sömuleiðis kallað eftir endurbótum á aðstöðu á þjóðarleikvangi en sú vinna er komin langt á veg.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið er því búið að skipa starfshópa til að finna tillögur fyrir nýjan þjóðarleikvang í knattspyrnu, nýjan þjóðarleikvang fyrir frjálsar íþróttir og þjóðarleikvang fyrir innanhússíþróttir í stað Laugardalshallar á rúmu ári en óvíst er hvenær framkvæmdir hefjast.

„Þetta er mikill léttir, ég hef beðið eftir því undanfarin ár að menn myndu höggva á hnútinn og hefja viðræður. Um leið er það augljósa viðurkennt, að ef að það ætti að hefja framkvæmdir á knattspyrnuvellinum þyrfti að finna frjálsíþróttunum stað,“ segir Freyr Ólafsson, framkvæmdastjóri Frjálsíþróttasambands Íslands, glaðbeittur eftir tíðindin. Hann er einn fimm fulltrúa í starfshópnum sem fulltrúi FRÍ.

Freyr Ólafsson, framkvæmdarstjóri FRÍ.

„Þetta er virkilega jákvætt. Í dag erum við með tvo velli í Reykjavík sem eru bara malbik, einn í Laugardalnum og einn í Mjódd þar sem efnið er ekki lagt á. Þetta er því mikið fagnaðarerindi þótt að það eigi enn eftir að fara í framkvæmdirnar. Borgarstjórinn hefur talað um að óeðlilegt sé að það falli eingöngu á herðar borgarinnar að útvega landsliðum æfinga- og keppnisaðstöðu og mennta- og menningarmálaráðherrann er með þessu að stíga ákveðin fram í því og bjóða aðkomu ríkisins.“

Aðspurður sagðist hann telja að FRÍ hefði staðið í þessari baráttu í hátt í tíu ár en ákveðið var að ráðast í endurbætur á Laugardalsvelli árið 2015 fyrir Smáþjóðaleikana.

„Þetta er búið að festast í umræðunni og stundum gleymst þegar horft er til nýs knattspyrnuleikvangs, en við erum með háleit markmið. Við erum fyrst og fremst að horfa til útiaðstöðu sem gæti samnýst svæðinu inni í Laugardalshöll. Þá geta félögin í hverfinu, Þróttur og Ármann, einnig nýtt sér aðstöðuna sem og almennir íþróttahópar. Laugardalsvöllur hefur verið mjög lokaður fyrir þá sem vilja hlaupa, en okkar markmið er að hópar geti komið utan æfingatíma félaganna og notað aðstöðuna.“

Þórey Edda Elísdóttir, fyrrverandi stangarstökkvari sem fór þrisvar fyrir hönd Íslands á Ólympíuleikana, situr í nefndinni sem fulltrúi ÍSÍ. Þórey sem situr í stjórn ÍSÍ tekur undir að það sé fagnaðarerindi að vinnan sé hafin við að taka fyrsta skrefið í átt að nýjum þjóðarleikvangi fyrir frjálsar íþróttir.

„Þetta er auðvitað bara löngu tímabært og flott að þessi vinna sé að fara af stað. Frjálsíþróttafólk, eins og annað íþróttafólk, vill hafa sinn þjóðarleikvang og þetta eru frábærar fréttir fyrir alla frjálsíþróttahreyfinguna. Það hafa miklar framfarir átt sér stað í innanhússaðstöðu fyrir frjálsar síðan ég var að keppa, með uppbyggingu frjálsíþróttahúsa á höfuðborgarsvæðinu, en aðstaðan utanhúss hefur á sama tíma setið á hakanum. Ef við viljum að þessi grein lifi áfram og blómstri er nauðsynlegt að hún sé til staðar og samkeppnishæf við það sem þekkist erlendis.“

Aðspurð hvað slík aðstaða geti þýtt fyrir okkar fremsta afreksfólk segir Þórey að þar komi margt inn í myndina.

„Auðvitað skiptir umhverfið miklu máli til að ná árangri, óháð grein og íþrótt. Ég þurfti sjálf að leita til útlanda á sínum tíma enda var ekki fullnægjandi innanhússaðstaða á Íslandi á þeim tíma. Það er ákjósanlegra fyrir íþróttamenn að geta æft sem næst heimahögum og þá er möguleikinn á að mynda afrekshóp.

Með því er okkar afreksfólk líka sýnilegra sem fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur og greiða þeim leið inn í greinina með innsýn sinni,“ segir Þórey og tekur undir að það geti einnig auðveldað fremsta frjálsíþróttafólki landsins að halda fjárhagnum í lagi.

„Svo er það annar vinkill, fjárhagslega hliðin. Það er afar dýrt að búa erlendis að æfa og keppa. Ég var sem betur fer með góðar styrktaraðila sem gerðu það að verkum að ég gat mikið æft og keppt úti.“