Lokaleikir riðlakeppninnar á HM kvenna fara fram í dag þar sem hæst ber að nefna leik Bandaríkjanna og Svíþjóðar upp á efsta sæti F-riðils.

Þá kemur í ljós hvaða sextán lið leika í útsláttarkeppninni sem hefst um helgina.

Í F-riðli mætast Bandaríkin og Svíþjóð í Le Havre þar sem efsta sæti riðilsins er undir. Svíþjóð þarf að vinna leikinn til að tryggja sér efsta sætið en Bandaríkjunum dugar jafntefli.

Líklegt er að liðið sem lendir í efsta sæti mæti gestgjöfunum í Frakklandi í átta liða úrslitunum og á meðan liðið í öðru sæti þarf líklegast að mæta Þýskalandi í átta liða úrslitunum.

Á sama tíma mætast Síle og Taíland í úrslitaleik þar sem sigurvegarinn kemst áfram í 16-liða úrslitin. Með jafntefli sitja bæði liðin eftir.

Fyrr um daginn mætast Kanada og Holland í leik upp á efsta sæti E-riðils. Evrópumeistararnir eru í efsta sæti en Kanada getur komist upp fyrir Holland með sigri.

Líkt og í F-riðli fer Kamerún eða Nýja-Sjáland áfram í 16-liða úrslitin með sigri í leik liðanna sem hefst á sama tíma.