Lögreglustjórinn í París baðst í morgun afsökunar á því að hafa skipað sínum mönnum að beita táragasi til að halda aftur af stuðningsmönnum í aðdraganda úrslitaleiks Meistaradeildar Evrópu á dögunum.

Didier Lallement, lögreglustjórinn í frönsku höfuðborginni, játaði að hlutirnir hafi farið úrskeiðis þegar hann ræddi málið á franska þinginu.

Viðurkenndi Lallement að hann hafi ekki farið með rétt mál þegar hann sagði að það hefðu tugir þúsunda mætt án miða.

Liverpool og Real Madrid hafa krafist þess að það verði rannsakað hvað fór úrskeiðis eftir að leiknum var frestað þegar þúsundir stuðningsmanna komust ekki inn á völlinn.

Frönsk yfirvöld voru fljót að kenna stuðningsmönnum Liverpool um óspektirnar sem áttu sér stað fyrir utan Stade de France leikvanginn en aðdáendur beggja liða lentu í árásum frá glæpagengjum eftir leik.

Þá var staðfest að búið er að eyða myndbandsgögnum frá vellinum þar sem þeim er eytt á vikufresti nema óskað sé eftir því að geyma gögn.