Karlkyns stuðningsmaður hollenska landsliðsins í knattspyrnu, sem er þessa stundina á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fer fram í Katar segir lögregluna þar í landi skipað honum að losa sig við uppblásin brjóst sem hann hafði komið fyrir innanundir treyju sína.

Að sögn mannsins, sem ber nafnið Harry Goudsblom, er hann þekktur meðal hollensks stuðningsfólks hollenska landsliðsins í knattspyrnu fyrir það að skarta þessum uppblásnu brjóstum innanundir hollensku landsliðstreyjunni.

Þá hefur hann fengið viðurnefni sem þýðis yfir á íslensku sem: Brjóstamaðurinn.

Honum var hleypt inn á leikvanginn í Katar fyrir fyrsta leik hollenska landsliðsins á HM gegn Senegal en eftir leik fór allt í skrúfuna.

Holland vann leikinn gegn Senegal og í sigurpartýi meðal stuðningsmanna eftir leik fyrir utan leikvanginn var Harry skipað að fjarlægja uppblásnu brjóstin. Þá var honum skipað að taka af sér regnbogalitaða fyrirliðabandið sem hefur verið mikið í umræðunni í tengslum við HM í Katar.

Honum var síðan fylgt í burtu af svæðinu í kringum leikvanginn í fylgd tveggja lögreglumanna.