Lögreglan í Seville á Spáni er með mikinn viðbúnað fyrir úrslitaleik Evrópudeildarinnar sem fer fram í borginni á morgun. Þar mætast skoska liðið Rangers og þýska liðið Frankfurt en búist er við í kringum 100 þúsund Skotum í tengslum við leikinn og flestir þeirra eru miðalausir.

Þá er að auki búist við um 50 þúsund stuðningsmönnum Frankfurt og Juan Carlos Castro Esteves sem hefur málefni borgaraöryggis á Spáni á sinni könnu, segir þetta uppskrift að stórslysi.

,,Þetta er of mikið af fólki og of mikil drykkja sem tengist því. Meirihluti þessa fólks kemur hingað án miða á leikinn og þar að auki eru að eiga sér stað miklar framkvæmdir í borginni, saman getur þetta leitt til stórslyss."

Auk titilsins sem fylgir því að vinna Evrópudeildina í knattspyrnu mun sigurvegari úrslitaleiksins tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili og því er ansi mikið í húfi fyrir bæði félög. Juan Carlos segir lögregluyfirvöld í Seville vera að takast á við eitt stærsta verkefni sitt til þessa.

,,Hérna mætast stuðningsmannakjarnar tveggja liða, stuðningsmannakjarnar sem eru vanir því að drekka mikið af áfengi. Þetta fólk er vant því að drekka volga bjóra í sínum löndum, þegar að þeir komast í kynni við kalda og svalandi bjóra hér munu þeir drekka ennþá meira."