Innan við hálftíma eftir að leik Chelsea og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla lauk í gærkvöldi voru um það bil 2000 stuðningsmenn Liverpool saman komnir fyrir utan heimavöll liðsins, Anfield, til þess að fagna enska meistaratitlinum sem var í höfn.

Þá var þétt bílaumferð á götunum í kringum leikvanginn þar sem bílflautur voru notaðar til þess að fagna þessum langþráða titli. Blys voru tendruð og kampakátir stuðningsmenn sungu söngva langt fram á nótt. Óttast er að smit muni greinast hjá þeim stuðningsmönnum sem mættu á svæðið og þeim sem þeir eru í samskiptum við í framhaldinu.

Lögregluembættið í Liverpool hefur fordæmt þessa háttsemi stuðningsmanna Liverpool en þeir höfðu verið beðnir um að fagna titlinum á hófstemmdan hátt í heimahúsum. Meðal annars var Jürgen Klopp, knatspyrnustjóri Liverpol, fenginn til þess að brýna þetta fyrir stuðningsmönnum liðsins.

„Þrátt fyrir að meirihluti stuðningsmanna Liverpool hafi hegðað sér í samræmi við fyrirmælin sem sett voru þá var stór hópur fyrir utan Anfield í trássi við fyrirmæli okkar. Við fordæmum þá háttsemi," segir í tilkynningu lögreglunnar.