Viðar Halldórsson formaður FH tjáir sig við Stundina en Eggert Gunnþór er leikmaður félagsins. Fram hefur komið í fréttum að kæra hafi verið lögð fram á dögunum. Um er að ræða íslenska konu sem sakar Aron Einar og Eggert Gunnþór um að hafa nauðgað sér í Kaupmannahöfn árið 2010.

Aron Einar hefur hafnað sök með yfirlýsingu og samkvæmt Viðari hafnar Eggert Gunnþór allri sök í málinu. Aron Einar og Eggert voru í hópi íslenska landsliðsins sem mætti Danmörku í Kaupmannahöfn árið 2010. Hefur konan sakað þá tvo um að hafa nauðgað sér skömmu eftir leik.

Viðar ræðir ítarlega við Stundina en hann segist eiga í samskiptum við lögmann Eggerts. „Vegna þess að ég er í beinu sambandi við lögmann Eggerts Gunnþórs Jónssonar. Eggert Gunnþór Jónsson eða Aron Einar Gunnarsson hafa aldrei, ekki árið 2010 og ekki enn þann dag í dag, fengið tilkynningu um það að þeir séu til rannsóknar. Nota bene, ég er ekki að segja að það sé ekki lögreglurannsókn. Það getur liðið tími frá því að einhver leggur fram kæru þar til að meintur gerandi er kallaður til. Það getur líka gerst að meintur gerandi sé aldrei kallaður til. Það getur líka gerst," segir Viðar við Stundina.

Viðar segir að bæði Aron Einar og Eggert vilji að lögreglan rannsaki málið. „Það vilja allir. Ekki síst þessir meintu gerendur, ekki síst þeir,.“

Hann ítrekar svo að lögreglan hafi aldrei haft samband við þá. „Til dagsins í dag hafa þessir aðilar ekki fengið neitt um það að vita að þessir tveir ungu menn séu til rannsóknar. Það veit ég.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er stefnt að því að Eggert og Aron verði yfirheyrðir á sama tíma í nóvember. Aron Einar er búsettur í Katar en þarf að koma til landsins til að gefa skýrslu.