Spænskir fjölmiðlar náðu mynd af lögmannateymi Neymar fyrir utan Nou Camp degi eftir að forráðamenn PSG staðfestu að hann gæti verið á förum frá félaginu.

Neymar hefur óskað eftir því að yfirgefa franska félagið eftir tveggja ára dvöl í höfuðborg Frakklands og er helst orðaður við Real Madrid og Barcelona þessa dagana.

Brasilíski framherjinn lék áður með Barcelona við góðan orðstír og segja spænskir fjölmiðlar að hann sé afar áhugasamur um að leika við hlið Lionel Messi á ný.

Neymar var ekki í leikmannahóp PSG í fyrstu umferð frönsku úrvalsdeildarinnar í gær í ljósi þess að óvíst væri með framhald hans hjá félaginu.

Stuðningsmenn félagsins sungu við það tilefni níðsöngva um Neymar og birtu borða með niðrandi skilaboðum um Brassann.