Samkvæmt tilkynningu Einars Odds, hefur afstaða knattspyrnumannanna Arons Einars Gunnarssonar og Eggerts Gunnþórs Jónssonar, varðandi meinta nauðgun þeirra á íslenskri konu í landsliðsferð með íslenska landsliðinu í Kaupmannahöfn árið 2010, ekki breyst. Þeir hafna því með öllu að hafa brotið af sér og reikna með að málið verði fellt niður.

Tilkynning Einars Odds til fjölmiðla:

Í dag hafa birst í fjölmiðlum umfjallanir um að skýrslutökur hafi farið fram vegna rannsóknar lögreglu á máli Arons Einars Gunnarssonar og Eggerts Gunnþórs Jónssonar. Ég hef ekki haft tök á að svara símtölum sem ég gef mér að tengjast umfjölluninni en vil, ásamt Unnsteini Elvarssyni lögmanni Eggerts, koma á framfæri eftirfarandi yfirlýsingu/athugasemd fyrir hönd þeirra beggja.

Skjólstæðingar okkar hafa þegar lýst yfir sakleysi sínu og hafa nú loksins fengið að segja formlega frá sinni hlið í skýrslutöku hjá lögreglu eins og þeir óskuðu eftir. Þeir hafna því með öllu að hafa brotið af sér og reikna með að málið verði fellt niður. Afstaða þeirra er því alveg óbreytt. Að öðru leyti vísast til fyrri yfirlýsinga þeirra en þeir munu ekki tjá sig frekar um málið að sinni.

Aron Einar búinn að gefa skýrslu

Aron Einar Gunnars­son, fyrir­liði ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta og Eggert Gunnþór Jónsson, fyrrum landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður FH, eru búnir að gefa skýrslu hjá lög­reglu vegna rann­sóknar á meintu kyn­ferðis­broti í Kaup­manna­höfn fyrir ellefu árum. RÚVgreindi frá því í morgun.

Greint var frá því í októ­ber síðast­liðnum að ís­lensk kona hefði lagt fram kæru vegna málsins á dögunum, en hún sakar Aron Einar og Eggert Gunn­þór um að hafa nauðgað sér í Kaup­manna­höfn árið 2010.

Aron Einar og Eggert Gunn­þór hafa báðir neitað sök og kallaði Aron Einar sjálfur eftir því í yfir­lýsingu sem hann sendi frá sér að hann fengi að gefa skýrslu hjá lög­reglu vegna málsins.