Logi Geirs­son, fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­maður í hand­bolta telur að Vals­menn, sem spáð er Ís­lands­meistara­titlinum karla­megin í hand­boltanum, gætu átt erfitt upp dráttar á tíma­bilinu. Tíma­bilið í Olís deild karla fer form­lega af stað í dag og Logi segir mörg lið geta blandað sér í bar­áttuna um deildar­meistara­titilinn.

„Frá því að ég sökkti mér að fullu í þetta fyrir um tveimur til þremur vikum og fylgdist með náið með undir­búningi liðanna hefur bara mikið breyst og það á svona skömmum tíma,“ segir Logi við Frétta­blaðið.

„Á dögunum voru Haukar að fá risa styrkingu í Andra Má Rúnars­syni og eftir það sem gengið hefur á undan­farna daga neyðist ég til að breyta spá minni fyrir deildar­keppnina. Við skulum hafa það í huga að ég spái þessu eftir því hverjir mér þykir lík­legastir til að enda sem deildar­meistarar. Svo tekur úr­slita­keppnin við sem er allt annar hand­leggur.“

Tíma­bilið sem Valur lendir í vand­ræðum

Logi dregur þá á­lyktun af stöðunni núna að Haukar endi í fyrsta sæti, FH í öðru, Valur í þriðja og ÍBV í fjórða sæti.

„Valur er á leið í Evrópu­keppni og þeirra breidd er ekkert eitt­hvað rosa­leg. Ég veit þeir hafa verið að raða inn titlum undan­farið og ég hef hrifist af hand­boltanum sem liðið spilar en ég tel að þetta verði tíma­bilið þar sem þeir lenda í miklum vand­ræðum vegna þess að það eru svo mörg rosa­lega sterk lið í kringum þá.“

Sú breyting verður á komandi tíma­bili Vals að liðið tekur þátt í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar og með því koma fleiri ferða­lög og fleiri leikir. Logi þekkir slíka stöðu vel eftir tíma sinn sem at­vinnu­maður og segir þátt­töku í Evrópu­keppni hafa á­hrif.

„Þetta hefur yfir­leitt alltaf á­hrif og getur tekið taktinn úr liðunum og þau mis­stíga sig oftar. Við vitum að meira álag getur stuðlað að meiri meiðslum. Ef Vals­menn halda þetta út, ná að halda þeim dampi sem þeir hafa verið á undan­farin ár, þá væri það krafta­verk. Ég er ekkert að grínast með það. Geta þeir keyrt á þessum mann­skap í gegnum Evrópu­keppnina og Olís deildina sem er feyki­sterk og rúllað yfir hana. Þeir voru bara rétt á undan Haukum undir lok deildarinnar. Ég bara sé það ekki gerast.

Ég hef sjálfur spilað í Evrópu­keppninni, unnið hana tvisvar og veit hvaða á­hrif hún getur haft. Öll um­ræðan hefur verið á þá leið að spyrja hvað þurfi að gera til að stöðva þetta Vals­lið en ég tel að menn ættu frekar að spyrja sig hvaða lið getur lagt ÍBV af velli. Þau lið eru ekki mörg. "

Logi og Ásgeir Örn Hallgrímsson unnu Evróputitil saman með Lemgo

Mýtan um Olís deildina gangi upp

Logi segir þetta vera sína til­finningu fyrir mótinu og til­finningin segi honum á þessari stundu að Haukar séu lík­legastir til að standa uppi sem deildar­meistarar.

„Haukarnir eru búnir að fá geggjaða styrkingu og miðað við það sem ég hef séð og heyrt af þessum nýja mark­manni hjá þeim þá er hann flottur. Fyrir fram finnst mér deildin ó­trú­lega jöfn og þetta verður svaka­lega spennandi. Ein mest spennandi deild sem ég man eftir. Þessi mýta um að deildin sé alltaf að verða sterkari og betri, hún er bara sönn.“

Hann segir Snorra Stein Guð­jóns­son, þjálfara Vals þurfa hreyfa liðið sitt meira á komandi tíma­bili. „Byrjunar­liðið verður ekki eins þegar að hann spilar við lið á borð við KA og síðan á móti liði í Evrópu­deildinni. Hann mun þurfa að skipta örar, gefa öðrum séns. Það getur riðlað leik liðsins."

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals
©Torg ehf / Ernir Eyjólfsson

Sér­fræðingur í setti

Logi verður á meðal sér­fræðinga Seinni bylgjunnar á Stöð 2 sport í tengslum við Olís deildina. Hann iðar í skinninu að takast á við það hlut­verk á ný.

Logi snýr aftur sem sérfræðingur í Seinni bylgjunni
Mynd: Skjáskot

„Maður er alltaf að bíta í hnúann á sér á Twitter í tengslum við þessa deild. Manni langar oft að skrifa svo mikið og segja í tengslum við hana. Ég er bara enda­laust inn í þessu og þá hef ég verið í þessu sér­fræðinga hlut­verki í tengslum við stór­mótin undan­farin tíu ár eða svo. Þetta er bara í blóðinu, fyrstu fréttirnar sem maður vill lesa eru úr þessum deildum og ég tel mig geta fært hand­boltanum helling með minni að­komu í sjón­varpinu þar sem ég kem inn í gott teymi."

Hann segir spennandi tíma ríkja í kringum hand­boltann á Ís­landi. „Ég finn núna að það er mikill upp­gangur í hand­boltanum á Ís­landi. Hann er að dreifast víðar og lands­liðið okkar endaði í 6. sæti á síðasta stór­móti. Mig langaði bara að komast á þennan vagn."