Logi Tómasson, leikmaður Íslands og bikarmeistara Víkings, var gestur í sjónvarpsþætti 433.is á Hringbraut í gærkvöldi. Þar var til að mynda farið yfir stutta dvöl hans hjá FH árið 2020, en hann gekk nokkuð óvænt í raðir félagsins.

Bakvörðurinn gekk í raðir FH á láni. Hann vildi fá meiri spiltíma, eitthvað sem Víkingur gat ekki veitt honum á þessum tímapunkti.

„Þetta gerðist mjög hratt. Maður var ungur og kannski vitlaus. Ég var ekki í hóp í eitt skiptið og var alveg brjálaður og bað Arnar um að fá að fara á láni,“ segir Logi í þættinum.

„Ég hélt á þeim tíma að það væri betra, en það var kannski ekkert betra því ég spilaði ekki það marga leiki.

Þetta var ágætur tími, skemmtilegir strákar í klefanum. En síðan fattar maður bara að maður á heima í Víkingi.“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, reyndi að tala Loga af því að fara á láni.

„Hann vildi ekki að ég myndi fara, en hann skildi mig á þeim tíma. Við vorum þrír vinstri bakverðir að berjast um sömu stöðuna.“

En hélt Logi að tími hans hjá Víkingi væri að líða undir lok á þessum tímapunkti?

„Ég var ekkert að spá í því. Ég vildi bara spila fótbolta og sýna hvað ég gæti. Ég fékk ekki traustið þá, kom aftur, beið aftur þolinmóður í fyrra og svo núna er maður búinn og loksins kemur tækifærið, þá þarf maður bara að vera klár.“

Þáttinn í heild má sjá hér neðar.