Eiður Smári Guðjohnsen hefur látið af störfum sem þjálfari karlaliðs FH í knattspyrnu. Logi Ólafsson og Davíð Þór Viðarsson munu stýra liðinu. Þetta kemur fram í frétt á facebook-síðu FH-inga.

Eiður Smári var í morgun kynntur til leiks sem aðstoðarmaður Arnars Þórs Viðarssonar í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Af þeim sökum mun hann hætta sem aðalþjálfari FH.

Davíð Þór var ráðinn aðstoðarþjálfari Eiðs Smára í haust en Logi sem færði sig úr starfi þjálfara í tæknilegan ráðgjafa hjá FH að lokinni síðustu leiktíð tekur þjálfaragallann aftur fram.

Logi tók við FH um miðjan júlí síðastliðinn ásamt Eiði Smára. Undir þeirra stjórn hafnaði liðið í öðru sæti Íslandsmótins en liðið var með 36 stig þegar fjórar umferðir voru enn óleiknar og mótinu var hætt vegna kórónaveirufaraldursins.

FH vann 10 af 14 leikjum liðsins undir stjórn Loga og Eiðs í deildinni en liðið var einnig komið í undanúrslit bikarkeppninnar.