Logi Geirsson, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta segist ekki hafa trúað sínum eigin augum þegar að hann horfði upp á Hauk Þrastarson meiðast illa í leik með pólska liðinu Kielce í gærkvöldi. Haukur hafi verið búinn að koma sér rækilega á kortið í handboltaheiminum og inn í byrjunarlið landsliðsins að mati Loga.
,,Þetta er skelfilegt," segir Logi um alvarleg hnémeiðsli Hauks við Fréttablaðið. ,,Ég fékk bara tár í augun við að horfa á þetta og er ekkert að grínast með það. Ég var að horfa á leikinn í beinni útsendingu og ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar að þetta gerðist."
Það hafi um leið sést að um afar alvarleg meiðsli á hné hafi verið að ræða en þetta er því miður ekki í fyrsta skiptið sem hinn 21 árs gamli Haukur lendir í slíkum meiðslum.
,,Þegar að Haukur fer út í atvinnumennsku á sínum tíma þá er hann talinn einn efnilegasti maður í heimi, hann lendir síðan í slæmum meiðslum og siglir undir radarinn í kjölfarið en hefur undanfarna mánuði verið að koma svo svakalega sterkur inn."
Logi var farinn að sjá Hauk fyrir sér í byrjunarliði íslenska landsliðsins á komandi heimsmeistaramóti sem hefst í janúar.
,,Hann var kominn á þann stað með sinn leik, hann var annað hvort fyrsti maður inn af bekk eða þá í byrjunarliði landsliðsins, það er bara þannig."
Það hafi verið ótrúlegt að fylgjast með Hauki undanfarið í einu besta liði heims, Kielce.
,,Frammistaða hans til að mynda í Meistaradeildinni hefur valdið því að menn héldu varla vatni yfir honum.
Hann blómstraði á sínum tíma en hefur verið að gera allt mikið betur undanfarið. Haukur var orðinn sterkari, hann hoppaði hærra, skaut fastar og það var bara hreint út sagt ótrúlegt að horfa á hann inn á vellinum."
Mjög erfitt tímabil fram undan
Logi þekkir það vel að glíma við erfið meiðsli frá sínum atvinnumanna- og landsliðsferli.
,,Ég fékk minn skammt af meiðslum á sínum tíma. Til að setja þetta í samhengi þá er það að slíta krossband mögulega verstu meiðslin sem handboltamenn geta lent í.
Hvað minn feril varðar þá lendi ég til að mynda í því í eitt skiptið að bakbrotna og vera frá í átta mánuði á mínu öðru ári í atvinnumennsku."
Logi var nánast rúmliggjandi í alla þessa átta mánuði.
,,Að ganga í gegnum svona tímabil er bara mjög erfitt og krefjandi fyrir hausinn á manni, andlegu hliðina. Maður þarf að vera með fókusinn á hárréttum stað til að vinna sig úr svona.
Það vinni samt margt með Hauki í þessari stöðu.
,,Hvað Hauk varðar þá er hann það gegnheill að hann vinnur sig út úr þessu. Hann þarf með sér gott bakland og mikinn stuðning því að maður dettur algjörlega út úr öllu.
Maður dettur út úr allri umfjöllun, maður dettur út úr leikmannahópnum og það fer miklu meiri tími í það að vera meiddur atvinnumaður heldur en spilandi. Allan daginn alla daga vill maður koma sér stand."
Það sem fólk átti sig ekki á þegar að leikmaður meiðist er að klukkutímarnir sem fara í endurhæfingu á hverjum degi jafnast á við tvöfaldan vinnudag atvinnumannsins.,,Núna þarf bara að halda vel utan um Hauk núna og hann þarf sjálfur að vera sterkur."
Haukur muni snúa aftur, landsliðinu til góðs.
,,Ég er klár á því. Við munum bara sjá hann í staðinn á Evrópumótinu í Þýskalandi árið 2024, þá verður hann kominn aftur á þann stað sem hann var kominn á.
Ég fylgist með handbolta allan daginn alla daga og ég hreinlega trúði því ekki hversu góður hann var orðinn. Síðustu sex vikurnar hefur hann verið í algjörum sérflokki með Kielce."