Logi Geirs­son, fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­maður í hand­bolta segist ekki hafa trúað sínum eigin augum þegar að hann horfði upp á Hauk Þrastar­son meiðast illa í leik með pólska liðinu Ki­elce í gær­kvöldi. Haukur hafi verið búinn að koma sér ræki­lega á kortið í hand­bolta­heiminum og inn í byrjunar­lið lands­liðsins að mati Loga.

,,Þetta er skelfi­legt," segir Logi um al­var­leg hné­meiðsli Hauks við Frétta­blaðið. ,,Ég fékk bara tár í augun við að horfa á þetta og er ekkert að grínast með það. Ég var að horfa á leikinn í beinni út­sendingu og ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar að þetta gerðist."

Það hafi um leið sést að um afar al­var­leg meiðsli á hné hafi verið að ræða en þetta er því miður ekki í fyrsta skiptið sem hinn 21 árs gamli Haukur lendir í slíkum meiðslum.

,,Þegar að Haukur fer út í at­vinnu­mennsku á sínum tíma þá er hann talinn einn efni­legasti maður í heimi, hann lendir síðan í slæmum meiðslum og siglir undir radarinn í kjöl­farið en hefur undan­farna mánuði verið að koma svo svaka­lega sterkur inn."

Logi var farinn að sjá Hauk fyrir sér í byrjunar­liði ís­lenska lands­liðsins á komandi heims­meistara­móti sem hefst í janúar.

,,Hann var kominn á þann stað með sinn leik, hann var annað hvort fyrsti maður inn af bekk eða þá í byrjunar­liði lands­liðsins, það er bara þannig."

Það hafi verið ó­trú­legt að fylgjast með Hauki undan­farið í einu besta liði heims, Ki­elce.

,,Frammi­staða hans til að mynda í Meistara­deildinni hefur valdið því að menn héldu varla vatni yfir honum.

Hann blómstraði á sínum tíma en hefur verið að gera allt mikið betur undan­farið. Haukur var orðinn sterkari, hann hoppaði hærra, skaut fastar og það var bara hreint út sagt ó­trú­legt að horfa á hann inn á vellinum."

Mjög erfitt tíma­bil fram undan

Logi þekkir það vel að glíma við erfið meiðsli frá sínum at­vinnu­manna- og lands­liðs­ferli.

,,Ég fékk minn skammt af meiðslum á sínum tíma. Til að setja þetta í sam­hengi þá er það að slíta kross­band mögu­lega verstu meiðslin sem hand­bolta­menn geta lent í.

Hvað minn feril varðar þá lendi ég til að mynda í því í eitt skiptið að bak­brotna og vera frá í átta mánuði á mínu öðru ári í at­vinnu­mennsku."

Logi var nánast rúm­liggjandi í alla þessa átta mánuði.

,,Að ganga í gegnum svona tíma­bil er bara mjög erfitt og krefjandi fyrir hausinn á manni, and­legu hliðina. Maður þarf að vera með fókusinn á hár­réttum stað til að vinna sig úr svona.

Það vinni samt margt með Hauki í þessari stöðu.

,,Hvað Hauk varðar þá er hann það gegn­heill að hann vinnur sig út úr þessu. Hann þarf með sér gott bak­land og mikinn stuðning því að maður dettur al­gjör­lega út úr öllu.

Maður dettur út úr allri um­fjöllun, maður dettur út úr leik­manna­hópnum og það fer miklu meiri tími í það að vera meiddur at­vinnu­maður heldur en spilandi. Allan daginn alla daga vill maður koma sér stand."

Það sem fólk átti sig ekki á þegar að leik­maður meiðist er að klukku­tímarnir sem fara í endur­hæfingu á hverjum degi jafnast á við tvö­faldan vinnu­dag at­vinnu­mannsins.,,Núna þarf bara að halda vel utan um Hauk núna og hann þarf sjálfur að vera sterkur."

Haukur muni snúa aftur, lands­liðinu til góðs.

,,Ég er klár á því. Við munum bara sjá hann í staðinn á Evrópu­mótinu í Þýska­landi árið 2024, þá verður hann kominn aftur á þann stað sem hann var kominn á.

Ég fylgist með hand­bolta allan daginn alla daga og ég hrein­lega trúði því ekki hversu góður hann var orðinn. Síðustu sex vikurnar hefur hann verið í al­gjörum sér­flokki með Ki­elce."