Ísland er til umfjöllunar í nýjasta tímariti Links Magazine, stærsta golftímariti heims og þar fer George Peper fögrum orðum um kynni sín af Íslandi.

Peper er þekktur fyrir skrif sín og var verðlaunaður af PGA-samtökunum fyrir skrif sín árið 2016 en greinina í heild sinni má lesa hér.

Hann eyddi um viku á Íslandi og lék alls á fimm völlum á Íslandi. Fyrstu dagana lék Peper í Grafarholtinu og Urriðavöll og heillaðist af báðum tveimur en hann segist aldrei hafa kynnst öðru eins og fyrstu holunni í Brautarholtinu.

„Fyrsta holan er krefjandi par 5 hola, teigurinn er hátt uppi og flötin er uppi á kletti á milli fjalls og sjávar. Þetta er sennilega dramatískasta opnunarhola heimsins. Allur völlurinn er einstakur og er útsýni út á Atlantshafið á öllum holunum og kemur sjórinn í leik á mörgum holum.“

Peper ferðaðist til Vestmannaeyja og lék völlinn í Herjólfsdal sem hann segir þess virði að heimsækja enda sé umhverfið magnþrungið og gaman að fylgjast með dýralífinu á vellinum.

Að lokum tók Peper hring á Keili sem hann segir að standi upp úr af þeim golfvöllum sem hann lék á Íslandi.

„Þessi völlur er meiriháttar, fyrri níu holurnar virðast vera á tunglinu og skera sig út úr eldfjallahrauninu. Það er ekkert hægt að vera utan brautar, það eru bara brautir og hraun. Seinni níu holurnar eru eins og á annarri plánetu, galopnar holur með mikið landslag og sex þeirra með fallegt útsýni yfir höfnina. Í fjarska sá maður glitta í jökul,“ segir Peper og heldur áfram:

„Ég veit ekki um neinn völl í heiminum sem kallar eftir jafn mikillri nákvæmni og á fyrri níu holunum á Keilisvellinum. Ef það stæði til boða að spila aftur á Keilisvellinum myndi ég stökkva á tækifærið,“ segir Peper.